Svínaflensugreiningar sérhæfðar og kostnaðarsamar

Landspítali
Landspítali Ómar Óskarsson

Nú hafa fimmtán manns greinst með svínaflensuna hér á landi, en nýjustu tilfellin greindust um helgina. „Við vitum að þetta er bara toppurinn á einhverju ísbergi,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Reynslan sýni að  einn af hverjum tuttugu sé nógu veikur til að leita læknis

Til að hægt sé að átta sig á útbreiðslu svínaflensunnar, eru tekin sýni úr fólki með inflúensueinkenni. Til öryggis eru líka tekin sýni úr fólki sem hefur verið í tengslum við smitaða einstaklinga, þó það sé ekki með einkenni.

Haraldur segir að aldrei væri hægt að taka sýni úr öllum sem dettur það í hug. Bæði sé afkastagetan ekki nógu mikil og það sé líka mjög kostnaðarsamt.

Haraldur segir rannsókn sýnanna mjög sérhæfða og til hennar þurfi sérstakan tækjabúnað sem er aðeins til staðar á rannsóknarstofu Landspítalans í veirufræði. Þar eru öll sýni sem koma til rannsóknar greind.   

Spurður um hvort hægt að átta sig á hve hátt hlutfall af þjóðinni komi til með veikjast segir Haraldur að í venjulegum flensum séu það yfirleitt um 10% þjóðarinnar sem veikist. En í svona heimsfaraldri geti það verið á bilinu 30%-50% þjóðarinnar sem smitist. Ástæðan sé sú að það séu engin mótefni gegn þessari nýju veiru og þess vegna er þetta heimsfaraldur.

Haraldur segir það mismunandi hversu lengi svona heimsfaraldur er að ganga yfir og hann geti jafnvel gengið í bylgjum. Hann átti von á að flensan færi að hjaðna þegar líða tæki á sumarið og kæmi svo aftur í haust þegar líða tæki á veturinn.  Hér hefði verið reiknað með því að svona faraldur gæti jafnvel gengið yfir á tólf vikum, eins og faraldrar geri yfirleitt.

Upplýsingar landlæknis um svínaflensuna hér


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert