Icesave keyrt út úr efnahags- og skattanefnd

Tryggvi Þór Herbertsson á sæti í efnahags- og skattanefnd. Guðfríður …
Tryggvi Þór Herbertsson á sæti í efnahags- og skattanefnd. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir situr í utanríkismálanefnd, sem einnig fjallar um Icesave-málið. mbl.is/Ómar

Mikið ósætti er á milli meirihluta og minnihluta efnahags- og skattanefndar, sem fundaði um hádegisbilið í dag. Á fundinum var samþykkt að taka Icesave-málið út úr nefndinni, en minnihlutinn var því mjög andsnúinn.

Að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, vildi minnihlutinn halda málinu í meðferð nefndarinnar eins lengi og hægt væri, eða að minnsta kosti þangað til fjárlaganefnd sæi ástæðu til þess að afgreiða það frá sér. Sífellt séu að koma fram nýjar upplýsingar í málinu og alls ekki tímabært að afgreiða það úr nefnd.

Þá tók Bjarkey Gunnarsdóttir sæti í nefndinni og skrifar undir álit meirihlutans. Hún kom inn sem varamaður Lilju Mósesdóttur, sem er í hópi þeirra þingmanna vinstri-grænna sem eru hvað andsnúnastir Icesave samningunum eins og þeir líta út í dag og hefur lýst því yfir að hún muni ekki samþykkja ríkisábyrgð á þeim í atkvæðagreiðslu, eins og málið lítur út í dag.

Stefnir að sögn Tryggva Þórs í að álitin verði tvö frá efnahags- og skattanefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert