„Erfitt og sársaukafullt“

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík, við störf í miðborginni.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri í Reykjavík, við störf í miðborginni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu eru rétt rúmlega þrjú hundruð, og eru því um 650 íbúar á hvern lögreglumann. Í Osló, höfuðborg Noregs, eru ca. 310 íbúar á hvern lögreglumann og rétt rúmlega þrjú hundruð í Kaupmannahöfn. Sú var tíðin að fleiri lögreglumenn þjónuðu í höfuðborginni einni en nú sinna öllu höfuðborgarsvæðinu. Og ekki er útlit fyrir að lögreglumönnum fjölgi, fremur að þeim fækki á næstunni.

Ekki aðeins niðurskurður

Embætti lögreglu höfuðborgarsvæðisins skilaði á árinu 2007 inn fjárlagatillögum til næstu fimm ára. Í þeim er gert ráð fyrir hækkun á framlögum, aukinni þjónustu og styrkingu á tilgreindum sviðum með hliðsjón af fjölgun fólks og verkefna. Framlögin hækkuðu ekki á síðasta ári og í ár er embættinu gert að skera niður um 57,1 milljón króna.

Dómsmálaráðuneytið gerir einnig 10% hagræðingarkröfu á næsta ári, líkt og gera þarf í öðrum kimum stjórnkerfisins. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir það þýða 320 milljóna niðurskurð. „Á sama tíma samþykkir Alþingi mótþróalaust fjölgun þeirra sem fá úthlutað listamannalaunum úr 1.200 í 1.600 á þriggja ára tímabili,“ segir Snorri.

Hann bendir jafnframt á að í umsögn fjárlagaskrifstofu vegna listamannalaunanna segir að þar sem ekki sé gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum og vegna mikils halla ríkisssjóð þurfi að fjármagna þau útgjöld með lántökum.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, var ekki tilbúinn að svara því hvernig embætti hans muni mæta niðurskurðinum en sagði þó að það þurfi „engan snilling til að átta sig á því að það verður bæði erfitt og sársaukafullt.“

Lögregla höfuðborgarsvæðisins glímir þó ekki aðeins við niðurskurð sem til er kominn vegna kreppunnar. Einnig þarf embættið að greiða allan beinan kostnað sem hlaust af mótmælunum síðastliðinn vetur. Sá kostnaður nemur um fjörutíu milljónum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert