Ekki minnst á lögfræðikostnað

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir rangt að íslenska ríkið hafi með uppgjörssamningi á milli íslenska- og breska innstæðutryggingasjóðsins ábyrgst tveggja milljarða króna lögfræðikostnað Breta við að ná fram ríkisábyrgð Íslendinga. Steingrímur harmar í tilkynningu að leiðrétta þurfi málflutning á málstofum sem haldnar eru á vegum HÍ og óvandaðan fréttaflutning þegar fjallað er um jafn viðkvæm og mikilvæg mál og hér um ræðir.

Í máli Ragnars H. Hall, hæstaréttarlögmanns á málstofu lagadeildar Háskóla Íslands í gær um nokkur álitaefni á Icesave-samningum við Breta og Hollendinga, kom fram að til væri sérstakur uppgjörssamningur um það hvernig fara skuli með uppgjör Breta án þess að hann gæti lýst því nákvæmlega í hverju hann fælist. En þar inni væru kröfur sem hann hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram. Nefndi hann dæmi um að inni í þeirri ríkisábyrgð sem krafist er af Íslendingum væri lögmannskostnaður upp á um tvo milljarða fyrir Breta

Fjármálaráðherra segir þetta rangt og sendi frá sér leiðréttingu vegna ummælanna.

„Hið rétta er að íslensk stjórnvöld féllust sl. haust á það að þeim bæri að greiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi hluta af innstæðum þeirra í Landsbanka Íslands(LÍ) í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Hluti af skuldbindingum innstæðutryggingasjóða samkvæmt reglugerðinni er að sjá umútborganir og samskipti við innstæðueigendur,“ segir í yfirlýsingu fjármálaráðherra.

Þá segir að innstæðutryggingasjóðir Bretlands og Hollands hafi séð um þetta verkefni hvað varðar innstæðueigendur hjá LÍ í þessum löndum. Íslenski og breski innstæðutryggingasjóðirnir hafi gert með sér samkomulag um að deila með sér þeim kostnaði sem hlytist af uppgjöri þess fyrrnefnda við sparifjáreigendur í útibúum Landsbankans í Bretlandi.

„Íslenski innstæðutryggingasjóðurinn fellst með samningnum á að
greiða kostnað upp að 10.000.000 breskum pundum. Sambærilegt samkomulag var gert við hollenska innstæðutryggingasjóðinn vegna kostnaðar að fjárhæð 7.000.000 evrur,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Steingríms J.

Verkefni erlendu sjóðanna fólst í að hafa samskipti við alla innstæðueigendur í löndunum, um 350.000 að tölu, upplýsa þá um stöðu mála, reikna út og ákveða greiðslur til hvers og eins og eftir atvikum að semja um þær.

Þá segir að útborgunum sé ekki að fullu lokið og ágreiningsmál enn uppi. Talið hafi verið heppilegra fyrir íslenska sjóðinn að semja um hlutdeild sína með fastri fjárhæð. Með því muni allur viðbótarkostnaður falla í innstæðutryggingasjóðina í Bretlandi og Hollandi.

Kostnaði innstæðutryggingasjóðsins af þessu verði lýst í þrotabú Landsbanka Ísland sem forgangskröfu eins og gert verði með innstæðurnar. Verði fallist á hana muni að því að áætlað er um 75% fjárhæðarinnar greiðast úr þrotabúi LÍ.

„Fjármálaráðuneytið harmar að leiðrétta þurfi málflutning á málstofum sem haldnar eru á vegum Háskóla Íslands og óvandaðan fréttaflutning þegar fjallað er um jafn viðkvæm og mikilvæg mál og hér um ræðir. Þetta á einkum við m.t.t. þess að heimildir um þetta efni hafa legið fyrir lengi. Hollenski samningurinn sem kveður á um þetta hefur frá því að frumvarpið var birt verið aðgengilegur meðal annarra lykilskjala málsins á island.is og enski samningurinn hefur verið aðgengilegur þingmönnum. Í hvorugu tilvikinu er minnst á lögfræðikostnað sem er þó gert að aðalatriði í málflutningi og fréttum,“ segir í yfirlýsingu Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert