Engar töfralausnir í boði

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins bindur vonir við viðbrögð aAlþingismanna vegna ófremdarástands þess sem ríkir vegna niðurskurðar í löggæslu. Dómsmálaráðherra heimsótti þrjár lögreglustöðvar í gær og sýndi mikinn skilning á viðhorfum lögreglumanna. Engar töfralausnir eru þó í boði.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, segir að eftir að hafa heyrt í alþingismönnum bindi hann vonir við að eitthvað verði gert vegna ástandsins en fjöldi lögreglumanna hefur látið í sér heyra undanfarið vegna mikils niðurskurðar samfara mikilli fjölgun verkefna. Lýsa þeir allir yfir miklum áhyggjum, ekki sé hægt að sinna útköllum eins og vera beri og álagið sé gríðarlegt. Sumir ganga svo langt að segja að löggæsla sé einfaldlega í rúst.

Stefán sagði að dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, hefði heimsótt þrjár lögreglustöðvar í gær. Rætt hefði verið ítarlega við hana um ástandið og farið yfir stöðuna eins og hún blasti við. Hefði dómsmálaráðherra sýnt sjónarmiðum lögreglumanna mikinn skilning en hefði ekki getað gefið nein viðbótarsvör við því hvað hægt væri að gera til að bæta stöðuna. Því miður væru engar töfralausnir í boði.


Stefán Eiríksson.
Stefán Eiríksson. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert