Þrautaganga að gróðureldum í Grindavík

Sinubruni. Mynd úr safni.
Sinubruni. Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

„Þetta er svona með því erfiðara sem við lendum í hérna, þú ert bara labbandi í kargahrauni og mosa upp að hnjám,“ segir Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri á Grindavík. Í kvöld barst slökkviliðinu tilkynning um gróðurelda austan Kleifarvatns, en eldurinn er töluvert utan alfaraleiðar og slökkvistarfið því erfitt.

„Þeir eru búnir að vera á göngu núna í tvo og hálfan tíma og voru að komast á staðinn,“ segir Ásmundur. „Björgunarsveitin er komin með okkur líka, hún er á fjórhjólum að reyna að komast þarna en þetta er erfitt.“

Eldurinn brennur í  þykkum mosa í hrauninu en ekki er mögulegt að komast þangað á bíl. Reykköfunartæki eru því ferjuð til slökkviliðsmannanna að sögn Ásmundar, en ekki er hægt að nota hefðbundin slökkvitæki til starfsins. „Aðferðin sem við notum hér í mosa, þegar það er mosi og hraun, þá þurfum við að grafa með höndunum skurð í kring til að hefta útbreiðslu eldsins. Það er það eina sem við getum gert, liggja á hnjánum og grafa eins og moldvörpur.“

Þegar slökkviliðsmenn komust á staðinn nú fyrir skömmu var eldurinn á stærð við stóran fótboltavöll en að sögn Ásmundar er það lán í óláni að á svæðinu er stilla en ekki vindur, sem gerir slökkvistarfið viðráðanlegt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert