Styður ESB-umsóknina eindregið

Vygaudas Usackas, utanríkisráðherra Litháens, og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Vygaudas Usackas, utanríkisráðherra Litháens, og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Vygaudas Usackas, utanríkisráðherra Litháens, lýsti yfir eindregnum stuðningi við aðildarumsókn Íslendinga að ESB á stuttum blaðamannafundi sem hann átti með Össuri Skarphéðinssyni fyrir stundu. Usackas kvaðst minntur á það daglega að Ísland hefði fyrst ríkja viðurkennt sjálfstæði landsins.

„Það er mér sönn ánægja að vera á Íslandi. Það er gata í Vilnius sem ég geng um á hverjum degi sem að heitir eftir Íslandi. Ég hef fylgst með þróuninni á Íslandi og ákvað að verða fyrsti utanríkisráðherrann til að heimsækja landið eftir að umsókn um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram formlega í Svíþjóð fyrir helgi. Við viljum fá Ísland inn í ESB,“ sagði Usackas, sem telur Ísland geta haft áhrif innan sambandsins.

Hann vék því næst að kreppunni sem hann sagði hafa kennt aðildarríkjunum að þau geti í sameiningu brugðist við hraðar og með meiri árangri við niðursveiflum en þau gætu ein síns liðs.

Litháíski ráðherrann ræddi einnig um morgunfund sinn með Össuri þar sem hann hefði greint frá því hvernig Litháar gætu miðlað málum. Umsóknin væri ekki auðvelt ferli.

Með þá reynslu sem Litháar hefðu í farteskinu gætu þeir aðstoðað við tæknileg atriði og ýmsa samningskafla í aðildarviðræðunum sem að Íslendingar hefðu samþykkt að verulegum hluta í gegnum EES.

Meðal öflugustu bandamanna okkar

Össur gerði samband ríkjanna að umtalsefni og sagði Usackas hafa verið einn þeirra erlendu embættismanna sem hefðu stutt Íslendinga með hvað dyggustum hætti. Usackas hefði talað máli Íslendinga við ýmsa utanríkisráðherra sem óskuðu eftir upplýsingum um afstöðu þjóðarinnar.

Íslenska ríkisstjórnin ætti með Usackas hauk í horni.

Össur minnti jafnframt á að ráðherrann hefði komið með samþykkt litháíska þingsins frá því fyrir helgi þar sem lýst er yfir eindregnum stuðningi við umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þessi yfirlýsing væri til vitnis um að Eystrasaltslöndin væru á meðal dyggustu stuðningsmanna Íslands.

Sjálfur væri Usackas afskaplega vel heima í þáttum sem heyrðu til samningaferlisins enda hefði hann verið aðalsamningamaður Litháa þegar þeir gengu í Evrópusambandið.

Því væri gagnlegt að læra af hans reynslu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert