Skoða lánveitingar Landsbanka

Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson keyptu tæplega …
Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson keyptu tæplega 46% hlut íslenska ríkisins í Landsbankanum haustið 2002. mbl.is/Kristinn

Fjármálaeftirlitið rannsakar nú hvort gamli Landsbankinn hafi lánað félögum, sem tengdust þáverandi eigendum bankans, vel yfir lögbundið hámark. Fréttastofa Sjónvarpsins greindi frá og sagði að hundruð milljarða króna hefðu farið í súginn.

Greint var frá því að vafi léki á því hvort Landsbankinn hefði greint rétt frá lánum til tengdra aðila í síðasta uppgjöri sem bankinn birti fyrir hrunið í október síðastliðnum. Lánabækur sem fréttastofa Sjónvarps vísaði í, benda til þess að lánað hafi verið langt umfram það sem lög um fjármálafyrirtæki heimila. Félög tengd eigendum bankans hafi tapað hundruðum  milljarða króna sem að stórum hluta voru lán frá Landsbankanum.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki má áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni. Lánveitingar til fyrirtækja sem Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson tengdust, fara hins vegar langt umfram það hlutfall, ef marka má lánabækur sem vísað er í.

Týnd eru til 60 milljarða króna lán til Grettis, gjaldþrota fjárfestingarfélags Björgólfs Guðmundssonar, 43 milljarða lán til Novator Pharma, sem Björgólfur Thor Björgólfsson fór fyrir, milljarða lánveitingar til Samsonar sem er gjaldþrota, hlutdeild Landsbankans í 100 milljarða láni til Eimskips, XL Leisure og Atlanta og hlutdeild Landsbanka í 70 milljarða sambankaláni Gltinis og landsbanka til Actavis.

Þá er skuldsetning Samson Global, sem var stærsti hluthafinn í Straumi, talin nema 50 milljörðum en megnið af eignum félagsins eru tapaðar og Landsbankinn lánaði hluta. Ótaldar eru milljarða lánveitingar til Icelandic og Hansa, sem m.a. átti knattspyrnufélagið West Ham. Loks segir Sjónvarpið að tap vegna lánveitinga vegna reksturs og hlutafjárkaupa í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is nemi um 5 milljörðum króna.

Þarna eru nefndar lánveitingar sem skipta hundruðum milljarða króna og talsverður hluti er lán frá Landsbankanum. Fullyrt er að umtalsverður hluti innlána af Icesave-reikningum Landsbankans hafi farið í lánveitingar til félaga sem tengjast fyrrum eigendum bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert