29 greinst með A(H1N1) hérlendis

Alls hafa 29 greinst með flensuna hér á landi. Mynd …
Alls hafa 29 greinst með flensuna hér á landi. Mynd úr safni. Reuters

Síðustu tvo sólarhringana hafa sex tilfelli verið staðfest á Íslandi af nýju inflúensunni A(H1N1), sem kölluð hefur verið svínaflensan, og hefur hún því greinst hjá samtals 29 einstaklingum frá því í maí sl.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að um sé að ræða tvo 15 ára gamla pilta sem komu til landsins 19. júlí sl. frá Gautaborg, en þar höfðu þeir tekið þátt í fótboltamóti.

Sautján ára gamla stúlku frá Spáni sem tekið hafði þátt í skátamóti hér á landi.

Sautján ára gamla stúlku sem ekki hafi ferðast erlendis og óljóst sé um tengsl við smitaða einstaklinga.

Tuttugu og sjö ára gamlan karlmann og 27 ára gamla konu en hvorugt þeirra hafi ferðast erlendis og óljóst sé um tengsl þeirra við smitaða einstaklinga.

Enginn þessara sex sjúklinga var með alvarleg einkenni og eru þeir allir á batavegi.

Vakin skal athygli á því að framundar er mesta ferðamannhelgi ársins og mikið um mannamót. Með hliðsjón af því að inflúensan er tiltölulega væg um þessar mundir hafa engin tilmæli verið gefin um samkomubann. Engu að síður er rétt að vekja athygli á því að allir sem eru með inflúensulík einkenni eiga að halda sig heima í sjö daga frá upphafi þeirra, fara vel með sig og forðast að smita aðra. Þótt inflúensan sé yfirleitt væg er nauðsynlegt að hafa í huga að fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur verið viðkvæmari fyrir henni en þeir sem hraustir eru og fengið alvarleg einkenni.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert