Álagning skatta 221,3 milljarðar

Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 221,3 milljörðum króna og hækkar um 3,6% frá fyrra ári, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.

Almennan tekjuskatt, 98,6 milljarða króna greiða 179.500 einstaklingar þetta árið. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur að meðaltali hækkað um 6,7% milli ára. Skatthlutfallið nam 22,75% og var óbreytt milli ára en persónuafsláttur hækkaði um 5,9% frá fyrra ári.

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni fyrir árið 2009 liggur nú fyrir.

Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2009 er 267.494. Fjölgun milli áravar 1%, sem er mun minni fjölgun en verið hefur undanfarin ár.

Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 108,7 milljörðum króna og hækkar um 6,7% frá fyrra ári. Gjaldendur útsvars eru 257.000, nær jafn margir og árið áður. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 6,2% milli ára.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 20,2 milljörðum króna og lækkar um 20% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru 185.000 og hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast frá fyrra ári. Ástæða fjölgunarinnar er fyrst og fremst sú að nú er fjármálastofnunum gert skylt að senda upplýsingar óumbeðið til skattyfirvalda.

Hlutabréfin fara úr 58% af fjármagnstekjum niður í 12%

Mikil breyting hefur orðið á samsetningu fjármagnstekna frá því sem verið hefur. Hagnaður af sölu hlutabréfa sem nam 58% af öllum fjármagnstekjum tekjuárið 2007 er nú 12%.

Mesta breytingin er á framtöldum tekjum af innistæðum í bönkum en þær eru nú 39% af fjármagnstekjum en voru 10%. Á þessu eru tvær skýringar. Annars vegar eru nú allar vaxtatekjur af innistæðum á framtölum en hins vegar uxu innistæður heimilanna í innlánsstofnunum verulega í kjölfar bankahrunsins þegar fé úr peningamarkaðssjóðum var flutt á innlánsreikninga.

Það skal tekið fram að þótt upplýsingar um innistæður heimilanna hafi ekki alltaf skilað sér í framtölum hefur fjármagnstekjuskattur verið greiddur af þeim, að því er segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Arðstekjur nema nú 27% af fjármagnstekjum og þær hafa vaxið milli ára um fimmtung.

Eignir heimilanna 3.657 milljarðar króna

Framtaldar eignir heimilanna námu 3.657 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 8,2% frá fyrra ári.

Fasteignir töldust 2.436 milljarðar að verðmæti eða um 2/3 af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 2,5% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði lítið.

Skuldir heimilanna uxu um fjórðung á milli ára

Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.683 milljörðum króna í árslok 2007 og höfðu þær vaxið um fjórðung frá árinu 2006. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa jukust um 25,9%, og námu 1.058,1 milljörðum króna. Skuldir vegna íbúðarkaupa námu 43,4 % af verðmæti þeirra og hafði það hlutfall hækkað um 8 prósentur frá fyrra ári, mun meira en dæmi eru um.

9,6 milljarðar í barnabætur í ár

Á þessu ári verða greiddir út rúmir 9,6 milljarðar króna í barnabætur samanborið við 8,4 milljarða króna í fyrra sem er 14 % aukning. Barnabætur voru hækkaðar um 5,7% og tekjuskerðingarmörk hækkuð um 25% frá fyrra ári. Þeim sem bótanna njóta fjölgar um 3,9% frá síðasta ári. Meðalbætur á hverja fjölskyldu hækka um 7,9%.

Tíu milljarðar í vaxtabætur

Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2008, nema 10 milljörðum króna í ár. Vaxtabætur fá tæplega 65.000 framteljendur og hefur þeim fjölgað um rúmlega 11% milli ára. Meðalvaxtabætur eru nú 154 þúsund að meðaltali á hvern vaxtabótaþega og hafa hækkað um 35% milli ára en þeim er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks.

Vaxtabætur voru hækkaðar í fjárlögum um 5,7% en með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við efnahagsvanda heimilanna voru hámarksbætur hækkaðar um fjórðung til viðbótar í ár auk þess sem heimilað hámarksvaxtahlutfall var hækkað úr 5 í 7%.

Í ár er í fyrsta skipti lagt á útvarpsgjald. Það nemur 17.200 kr á hvern framteljanda sem greiðir tekjuskatt og er á aldrinum 16-69 ára. Álagning gjaldsins nemur 3,2 milljörðum króna og er lagt á 187.000 gjaldendur.

Ríkissjóður greiðir út 15,1 milljarð þann 1. ágúst

Hinn 1. ágúst n.k. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 15,1 milljarður króna eftir skuldajöfnun á móti ofgreiddum sköttum. Vaxtabætur eru stærsti hluti útborgunarinnar en þær nema 8,3 milljörðum, 83% af öllum vaxtabótum.

Fjórðungur barnabóta verða útborgaðar og nemur upphæð útborgunarinnar 2,5 milljörðum. Ofgreidd staðgreiðsla nemur 3,9 milljörðum króna. Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári og kemur síðasti hluti þeirra, 2,6 milljarðar króna, til útborgunar 1. nóvember n.k.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert