Bjarni Ármannsson: Eðlileg fjárstýring

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis. mbl.is/Jim Smart

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka hf. segir ekkert óeðlilegt eða tortryggilegt við millifærslur sínar á fé úr landi skömmu fyrir bankahrunið í fyrrahaust.

Í yfirlýsingu sem Bjarni Ármannsson sendi frá sér vegna frétta RÚV í gær segir að skömmu fyrir hrun íslensku bankanna hafi hann millifært af reikningum sínum 243 milljónir króna úr landi og rúmar 85 milljónir inn í landið. Allt hafi þetta verið hluti af eðlilegri fjárstýringu. Bjarni segir það dylgjur að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar Glitnir var tekinn yfir af ríkinu.

Bjarni segist fagna því að þessi mál séu skoðuð ofan í kjölinn og tekið á þeim með tilhlýðilegum hætti. Þá segir Bjarni að umræða um hrun bankakerfisins sé bæði skiljanleg og nauðsynleg, en hún verði að vera málefnaleg og á grundvelli staðreynda.

Yfirlýsing Bjarna Ármannsonar

"Vegna fréttaflutnings RÚV í útvarps- og sjónvarpsfréttum í gær vil ég taka eftirfarandi fram:

1) Ég hætti sem forstjóri Glitnis banka hf. 30. apríl 2007 eða tæplega einu og hálfu ári fyrir þá örlagaríku atburði sem áttu sér stað sl. haust. Hafði ég því hvorki stöðu innherja í fyrirtækinu né gegndi neinni trúnaðarstöðu fyrir félagið. Dylgjur um að ég hafi vitað um innri mál félagsins eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Ég hvorki get né vil bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar voru í bankanum eftir að ég hætti störfum fyrir bankann vorið 2007. Sömuleiðis fagna ég því að þessi mál séu skoðuð ofan í kjölinn og á þeim tekið með tilhlýðilegum hætti.

2) Fréttir um 262 m.kr. millifærslur af reikningum mínum eru gerðar tortryggilegar og ýjað að því að verið sé að flytja fé úr landi í tengslum við hrun bankanna. Vitnað er í skýrslu Ernst og Young til Fjármálaeftirlitsins og tíundaðar nokkrar millifærslur á mínum vegum. Ég hef að sjálfsögðu ekki séð umrædda skýrslu en geri ráð fyrir að upplýsingar í henni séu réttar. Ég fæ ekki séð að nokkuð sé tortryggilegt við þessar eða aðrar millifærslur á mínum vegum, en þær eru sem hér segir:

  • Flutningur á 1,2 milljónum íslenskra króna til Noregs 29. ágúst.
  • Flutningur á 10,6 milljónum íslenskra króna til Noregs 12. september.
  • Flutningur á 85,1 milljón íslenskra króna (GBP 500.000) til Íslands 23. september, viku fyrir yfirtöku Glitnis.
  • Aðrar fjárhæðir sem nefndar voru í fréttum eru innlendar millifærslur vegna kaupa á innlendum skuldabréfum og innlendum sjóðum sem eru hluti af eðlilegri fjárstýringu.

Hér er sem sagt um að ræða flutning fjár til landsins, ekki frá því, að verðmæti rúmlega 73 milljónir króna.

3) Þess hefur ekki verið getið í fréttum en ég tel rétt að taka fram að félag í minni eigu flutti fjármuni frá Íslandi á þann hátt að tæplega 15 milljónir norskra króna eða 231 milljón íslenskra voru fluttar til Noregs 5. september 2008, mánuði fyrir fall bankanna.

Samtals flutti ég og eignarhaldsfélög mín fjármuni til Noregs að verðmæti 243 milljóna, vegna áætlaðra fjárfestinga, en á þessum tíma var ég búsettur í Noregi og sinnti fjárfestingum þar.

Á móti eru fluttar til landsins 85,1 milljón íslenskra króna. Þegar allt er talið fer því talsvert meira fé á mínum vegum frá Íslandi en til landsins í september 2008. Þetta tengist bankahruninu þó ekki á nokkurn hátt, enda er fjárstreymið til landsins meira í seinni hluta mánaðarins en fyrri hluta hans.

Ég harma það að blandast inn í umræðu af þessu tagi. Umræða um hrun bankakerfisins er bæði skiljanleg og nauðsynleg, en hún verður að vera málefnaleg og á grundvelli staðreynda."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert