Heimsbyggðin öll í hættu

Stjórnvöld víða um heim búa sig nú sem best þau geta undir frekari útbreiðslu A(H1N1) inflúensunnar eða svínaflensunnar. Tugir milljóna skammta af bóluefni hafa verið pantaðir og áætlanir hafa verið gerðar um aðgerðir til að hefta útbreiðslu flensunnar, áður en hún breytist í raunverulegan heimsfaraldur.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst yfir efasemdum gagnvart áætlunum um að bólusetja milljónir manna gegn flensunni enda verði bóluefni ekki til fyrr en eftir nokkra mánuði.

Margaret Chan, yfirmaður stofnunarinnar, segir bóluefnið enn í þróun. „Það ætti að verða til eftir nokkra mánuði en það að eiga bóluefni er ekki það sama og að eiga bóluefni sem reynist svo óhætt að nota. Öll rannsóknargögn verða ekki tilbúin fyrr en eftir 2-3 mánuði.“

800 dauðsföll

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að allir jarðarbúar, um 6,8 milljarðar manna, séu í hættu, nái flensan sér á strik. Staðfest hafa verið að minnsta kosti 150 þúsund tilfelli og yfir 800 dauðsföll um víða veröld eru rakin til flensunnar. Sérfræðingar telja að raunveruleg flensutilfelli séu hins vegar margfalt fleiri, þar sem heilbrigðisyfirvöld í hverju landi fyrir sig, hætti sýnatöku þegar skýr mynd hefur fengist af útbreiðslunni.

Upphafið í Mexíkó

Upphaf flensunnar er rakið til Mexíkó en fyrstu tilfellinn greindust þar í mars síðastliðnum. Einkennum veirusýkingarinnar svipar til flensu. Heilbrigðisráðherra Mexíkó, Jose Angel Cordova, sagði þegar veiran náði sér á strik þar, að veiran hefði stökkbreyst frá svínum og svo á einhverjum tímapunkti borist yfir til manna Þaðan er nafngiftin, Svínaflensa, komin.

A(H1N1) inflúensan hefur lagst misjafnlega þungt á ríki heims. Í Mið- og Suður-Ameríku eru um 500 látnir af völdum flensunnar en tölur um staðfest tilfelli liggja ekki fyrir. Í Bandaríkjunum hefur útbreiðslan verið hröð, tugir þúsunda eru smitaðir og á þriðja hundrað dauðsföll eru rakin til veirunnar. Bretar hafa orðið verst úti af Evrópuþjóðum en yfir 100 þúsund tilfelli hafa verið staðfest þar og 31 dauðsfall.

34 tilfelli á Íslandi

Hér á landi hafa verið staðfest 34 tilfelli inflúensunnar. Landlæknisembættið hefur pantað 300 þúsund skammta af bóluefni gegn svínaflensuveirunni H1N1 og er von á bóluefninu til landsins með haustinu. Skammtarnir duga til að bólusetja hálfa þjóðina.

Bandaríkin

A(H1N1) inflúensan var fyrst staðfest í Bandaríkjunum um miðjan júlí. Nú hafa verið staðfest 40.617 tilfelli flensunnar og 263 dauðsföll eru rakin til A(H1N1). Yfirvöld í Bandaríkjunum telja þó að tilfellin geti verið nær einni milljón, þar sem ekki eru tekin sýni úr öllum sem sýna einkenni flensunnar.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum efna til neyðarfundar á morgun til að ræða viðbrögð við flensunni og aðgerðir til að hefta útbreiðslu hennar. Þegar er búið að panta um 10 milljón skammta af bóluefni og er áætlað að bólusetning geti hafist um miðjan október. Bandarískir vísindamenn vinna nú að þróun nýs bóluefnis og ættu prófanir að geta hafist í næsta mánuði.

Ameríka

A(H1N1) inflúensan hefur lagst hvað þyngst á Mið- og Suður-Ameríku. Talið er að um 500 manns hafi látist af völdum flensunnar þar eða meira en helmingur allra þeirra sem staðfest er að látist hafi af völdum flensunnar. 138 manns hafa látist í Mexíkó og 165 í Argentínu. Fjölmörg Ameríkuríki hafa aukið fjárframlög til að sporna gegn útbreiðslu flensunnar. Þannig hafa stjórnvöld í Chile ákveðið að verja 30 milljónum dollara til kaupa á bóluefni. Sumarleyfi skóla hafa verið framlengd og víða eru skorður settar við fjöldasamkomum.

Bretland

Bretland er sú Evrópuþjóð sem hefur orðið hvað harðast úti af völdum flensunnar. Yfir 100 þúsund ný tilfelli inflúensunnar hafa verið staðfest þar undanfarna viku, nær tvöfalt fleiri en vikuna þar á undan. Staðfest er að 31 hefur látist í Bretlandi af völdum flensunnar. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa pantað 132 milljónir skammta af bóluefni og áforma að bólusetja helming þjóðarinnar. Bólusetning hefst í lok þessa árs. Bretar opnuðu á dögunum fyrir símaþjónustu vegna inflúensunnar þar sem hægt er að fá ráðleggingar og aðstoð. Áætlað er að um 200 þúsund símtöl séu afgreidd daglega.

Spánn

Á Spáni hafa verið staðfest 1.806 tilfelli inflúensunnar. Dauðsföllin þar í landi eru orðin sex. Engin viðbragðsáætlun er til vegna útbreiðslu flensunnar en stjórnvöld hafa pantað 37 milljónir skammta af bóluefni. Miðað er við að 40% þjóðarinnar veðri bólusett eða um 18 miljónir manna.

Taíland

Af Asíuríkjum hefur Taíland orðið einna verst úti af völdum A(H1N1) inflúensunnar. Í Taílandi eru staðfest 6.776 tilfelli inflúensunnar frá því veiran greindist þar fyrst í maí síðastliðnum. Þá hafa 66 látist af völdum flensunnar, þar af létust 22 í liðinni viku. Þetta er 50% aukning dauðsfalla.

Japan

Um miðja síðustu viku höfðu verið staðfest 4.462 tilfelli í Japan en ekkert dauðsfall. Japanar gripu til ráðstafana þegar í upphafi og hertu mjög heilbrigðiseftirlit á flugvöllum. Ef grunur lék á um flensusmit var viðkomandi settur í einangrun. Þá var um 4.800 skólum og leikskólum lokað í eina viku, þegar í upphafi flensufaraldursins. Japanar segjast eiga Tamiflu og Relenza sem dugi fyrir 38 milljónir sjúklinga. Japanar hyggjast framleiða 17 milljónir skammta af eigin bóluefni gegn inflúensunni á þessu ári.

Kína

Hjá fjölmennasta ríki heims, Kína, er útbreiðslan væg enn sem komið er. Aðeins hafa verið staðfest innan við 3.000 tilfelli inflúensu þar í landi. Eitt dauðsfall er rakið til inflúensunnar. Kínverjar brugðust mjög ákveðið við þegar í upphafi, minnugir bráðalungnabólgu (HABL) og fuglaflensufaraldurs. Erlendir ferðamenn eru undantekningalaust settir í sjö daga einangrun, ef grunur vaknar um smit. Engin áform eru um bólusetningu vegna flensunnar.

Afríka

Sárafá tilfelli inflúensu hafa verið staðfest í Afríkuríkjum. Sérfræðingar vara þó við því að veiran gæti náð sér mjög hratt á strik og orðið skæð vegna útbreiðslu HIV og alnæmis í álfunni. Í Suður-Afríku búa um 48 milljónir manna og eru um 6 milljónir með HIV smit. Rétt rúmlega 100 tilfelli inflúensu höfðu verið staðfest í Afríku um miðjan mánuðinn.

Mið-Austurlönd

Ísraelar staðfestu í gær fyrsta dauðsfallið af völdum inflúensunnar. Þá var fyrsta dauðsfallið af völdum A(H1N1) staðfest í Sádí-Arabíu í gær. Engar tölur liggja fyrir um útbreiðslu veirunnar en heilbrigðisráðherrar Arabaríkja segja miklar líkur á örri útbreiðslu á næstu mánuðum. Milljónir manna leggja leið sína til Mekka til að taka þátt í Hajj trúarathöfninni. Lagt hefur verið til að börn undir 12 ára aldri og fólk eldra en 65 ára, fái ekki að taka þátt í athöfninni vegna smithættunnar.

Mið- og Austur-Evrópa

Útbreiðsla A(H1N1) er tiltölulega væg í austur- og miðhluta Evrópu. Í Þýskalandi höfðu 1.469 tilfelli verið staðfest í byrjun síðustu viku. Ekkert dauðsfall hefur hlotist af völdum inflúensunnar. Þjóðverjar áforma kaup á bóluefni sem nægir fyrir þann fjórðung landsmanna sem er í mestri hættu.

Í Tékklandi höfðu í gær verið staðfest 63 tilfelli. Engin áform eru um bólusetningu þar.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert