Brýnt að leysa Icesave-deilu

Frá blaðamannafundi Össurar og Lellouche í morgun.
Frá blaðamannafundi Össurar og Lellouche í morgun. mbl.is/Kristinn

Evrópumálaráðherra Frakklands, Pierre Lellouche, átti í morgun fund með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í Reykjavík en Lellouche er staddur hér í heimsókn. Lellouche sagði aðspurður að ekki væru nein bein tengsl milli ESB-umsóknar Íslands og Icesave-deilunnar en hún hefði vafalaust áhrif.

 Hann sagði mikilvægt að Ísland styddi tillögur Frakka um að herða eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Icesave væri mikilvægt fyrir tvö aðildarríki ESB og finna yrði lausn á málinu.  ,,Ég ætla ekki að blanda mér í deilurnar um bankana, það er ekki mitt starf. En það verður að að taka á málinu. Þegar ég hlustaði á suma af ráðherrunum í Brussel fyrir nokkrum dögum kom þetta mjög skýrt fram."

 Hann sagði Ísland hafa margt fram að færa í ESB, lega landsins og löng saga lýðræðis hér sýndi það. ,,Hvað varðar umsókn Íslands get ég sagt að ég veit ekki til þess að neitt ríki sé andvígt aðild ykkar og það eru góð tíðindi," sagði Lellouche. ,,Við Frakkar settjum eitt mikilvægt skilyrði og það á ekki bara við um mál Íslands. Við þurfum nothæfan samning [um skipulag og starfshætti ESB]. Ég vona að Lissabon-sáttmálinn verði samþykktur en sú ákvörðun er í höndum írskra kjósenda 2. október. 

 Verði Lissabon-sáttmálinn ekki samþykktur verðum við í vanda. Þá munum við þurfa að hverfa aftur til Nice-sáttmálans og hann gerir einfaldlega ekki mögulegt að stækka sambandið, kerfið myndi þá ekki virka.

Ísland er að sjálfsögðu þegar mjög vel statt í ferlinu vegna þátttöku sinnar í Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen, landið hefur þegar fullnægt fjölmörgum lögum og reglugerðum ESB. Það á ekki að leyfa neinu ríki að fara eftir einhverri hraðbraut eða leyfa því að fara fram fyrir önnur umsóknarríki, ég er einkum að hugsa um Balkanlöndin í því sambandi. Fleiri ríki vilja fá aðild og þau fara inn á eigin skilyrðum, það verða allir að gera."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert