Nóg að gera hjá björgunarsveitum

Björgunarsveitarmenn hafa haft í nógu að snúast í sumar.
Björgunarsveitarmenn hafa haft í nógu að snúast í sumar. Kristján Kristjánsson

Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa aldrei áður upplifað jafn-annasaman júlímánuð og í ár. Útköll þennan mánuð eru orðin tæplega 100 og eru þá ekki taldar með þær fjölmörgu aðstoðarbeiðnir sem björgunarsveitir á hálendinu hafa sinnt.

Flest útköllin hafa tengst smábátum sem hafa lent í vandræðum og ferðamönnum sem hafa ratað í ógöngur víðs vegar um landið. Auk þessara verkefna hafa björgunarsveitir m.a. aðstoðað við sjúkraflutninga, slökkvistörf og leitað að týndu fólki.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er með björgunarsveitir á fjórum stöðum á landinu; á Hveravöllum, í Nýjadal, í Landmannalaugum og við Öskju. Þær hafa haft í nógu að snúast í sumar. Þessar sveitir verða á hálendinu fram yfir Verslunarmannahelgi.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að ýmsar ástæður séu fyrir því hversu mikið hefur verið að gera. Í fyrsta lagi eru strandveiða nefndar og að með þeim hafi margir gamlar bátar verið ræstir sem hafi svo bilað þegar á hólminn var komið. Þá segir að mun fleiri Íslendingar ferðist upp á hálendið nú en áður og margir séu óvanir slíkum ferðum. Jafnframt segir að ferðamenn hafi aldrei verið duglegri að fara upp á hálendið. 

Stærsta ferðahelgi ársins er framundan og vill Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetja fólk til að fara varlega og huga vel að eigin öryggi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert