Afgreiðslu AGS frestað

Bogdan Cristel

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur frestað því að ræða málefni Íslands á mánudag vegna þess að ekki hefur verið gengið frá Icesave-samkomulaginu. Þetta hefur Bloomberg fréttastofan eftir talsmanni sjóðsins, Caroline Atkinson. Búið er að taka Ísland út af dagskrá sjóðsins á mánudag.

Yfirstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætlaði á fundi sínum næstkomandi mánudag að ræða um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda og hvort forsendur séu fyrir því að sjóðurinn greiði út annan hluta lánsins til Íslands samtals 155 milljónir Bandaríkjadala.

Fyrsti hluti lánsins var 827 milljónir dala sem greiddur var út í nóvember á síðasta ári og restin átti að koma í átta jöfnum greiðslum sem verður hver að upphæð 155 milljónir dala.

Fyrsta endurskoðunin og annar hluti lánsins hefur dregist umtalsvert en upprunalega var hún á dagskrá í febrúar á þessu ári. Dráttur í endurskipulagningu bankanna, Icesave deilan, stjórnarskipti á Alþingi, tafir á  framlagningu langtímaáætlunar í ríkisfjármálum o.fl. mál hafa valdið töfum. Nú virðast hins vegar flest mál vera í höfn fyrir endurskoðun fyrir utan Icesave-samninginn.

Fyrr í vikunni kom fram í Morgunkorni Glitnis að verði ekki af afgreiðslu láns Alþjóða gjaldeyrissjóðsins nú mun hún tefjast a.m.k. um mánuð en öll töf í þessu er óhentug fyrir uppbyggingu á íslensku efnahagslífi.

Atkinson sagðist í dag á vefvarpi sjóðsins í Washington ekki eiga von á því að málefni Íslands verði tekin fyrir í næstu viku. Segist hún ekki vera viss um að gögn málsins séu tilbúin en það hafi verið góður gangur í að ljúka við endurskoðunina undanfarið svo hún eigi von á því að skýrslan verði tilbúin fljótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert