Innbrotum í bíla fjölgar mikið

Esjufarar eru sérstaklega varaðir við bílþjófum
Esjufarar eru sérstaklega varaðir við bílþjófum mbl.is/Kristinn

Innbrotum í bíla hefur fjölgað mikið á milli ára samkvæmt tjónaskýrslum Sjóvá. Það sem af er þessu ári hefur Sjóvá verið tilkynnt um 111 innbrot í bíla og tjón að verðmæti 9.435.695 krónum en allt árið 2008 var Sjóvá tilkynnt um 119 innbrot með tjónum sem námu 9.421.388 krónum.  

Fram kemur í fréttatilkynningu Forvarnarhússins  að þjófar brjótast inn í bíla allstaðar, jafnvel í innkeyrslum og bílageymslum. Þá segir þar að sérstök ástæða sé til að benda fólki á mikla tíðni þjófnaða úr bílum á bílastæði við Esjuna og öðrum útivistarsvæðum þar sem fólk geymi oft verðmæti sín í bílnum á meðan það nýtur útivistar.  

Einnig þekkist að þjófar fari í bíla við kirkjur til að ná í skírnar- og brúðargjafir.

 Forvarnahúsið minnir bílaeigendur á eftirfarandi ráð:· Ekki skilja neitt eftir í bílnum. Jafnvel gömul kápa eða tómur plast poki gæti freistað þjóf.

· Læsið alltaf bílnum og lokið öllum gluggum og sóllúgunni.

· Kveikið á þjófavörninni ef hún er í bílnum.

· Aldrei skilja lyklana eftir í bílnum.

· Farðu aldrei frá bílnum með hann í gangi – ekki einu sinni í innkeyrslunni.

· Legðu bílnum á öruggum stað, helst þar sem er mikil lýsing og umferð.

· Ekki merkja bílinn með límmiðum um hljómflutningsgræjur eða önnur tæki í bílnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert