Ísland verði eitt lögregluumdæmi

Lögreglan að störfum
Lögreglan að störfum Jakob Fannar Sigurðsson

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, kynnti á fundi með lögreglustjórum alls staðar af landinu og formanni félags lögreglumanna á Íslandi í morgun hugmyndir um að gera landið að einu lögregluumdæmi. Ekkert hefur verið ákveðið í þeim málum en unnið er að útfærslu hugmyndarinnar sem myndi fela í sér hagræðingu í rekstri.

Ragna segir að lagt sé til að eitt lögreglulið verði í landinu sem starfi í umdæmum undir umdæmisstjóra, sem starfi undir lögreglustjóra á landsvísu.

Ráðherra vonast til að starfshópur, sem farið hefur yfir málið og komi með fullmótaðar tillögur í september. Skiptar skoðanir eru um þessa hugmynd en engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar. 

Með þessu er vonast til þess að lögreglan verði sýnilegri og lögreglumönnum fjölgi á götunni um leið og stjórnendum yrði fækkað, þ.e. yfirbyggingin minnkuð.

Nánar verður fjallað um málið í mbl Sjónvarpi síðar í dag.

Síðar í dag munu fulltrúar lögreglunnar koma fyrir allsherjarnefnd Alþingis en lögreglufélag Reykjavíkur hefur boðað til félagsfundar síðdegis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert