Ölvunarakstur við lögreglustöð

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. Jim Smart

Lögreglumönnum sem voru á vakt í lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík um klukkan þrjú í nótt brá við mikinn skell og hávaða fyrir utan. Þeir hlupu út og sáu þá hvar bíll hafði lent uppi á umferðareyju á Skúlagötu, rétt við lögreglustöðina. 

Bíllinn var mikið skemmdur. Bensíntankurinn hafði rifnað undan bílnum og bensínið flóði um alla götuna.  Við bílinn stóð ætlaður ökumaður sem reyndist vera ölvaður. Hann var handtekinn og færður í lögreglustöðina þar sem hann fékk gistingu í fangageymslu.

Um er að ræða karlmann á þrítugsaldri. Að sögn varðstjóra lögreglunnar var maðurinn að aka niður Snorrabrautina og beygði til hægri inn á Skúlagötu, en náði ekki beygjunni og lenti uppi á umferðareyjunni. 

Kalla þurfti til kranabíl til að fjarlægja bílinn og slökkviliðið til að hreinsa bensínið upp af götunni.

Nóttin var að öðru leyti róleg hjá lögreglunni að sögn varðstjórans. Alls voru þrír teknir fyrir ölvunarakstur og brotist var inn í bíl í  Barðavogi í Grafarvogi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert