Hreiðar Már tekjuhæstur

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var tekjuhæstur Íslendinga í fyrra með 35.818.000 króna mánaðarlaun. Ekki færri en 270 starfsmenn fjármálafyrirtækja voru með meira en eina milljón króna í laun á mánuði í fyrra, í úttekt Tekjublaðs Frjálsrar verslunar.

Í Tekjublaði Frjálsrar verslunar eru birtar tekjur 2.700 Íslendinga. Þar eru greindar tekjur fólks í ýmsum starfsgreinum. Ljóst er að starsmenn fjármálafyrirtækja hafa borið mikið úr býtum í fyrra. Auk Hreiðars Más voru tveir bankamenn með meira en tíu milljónir á mánuði að meðaltali.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var með 22,899 milljónir og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landsbankans með rúmar 12 milljónir. Alls voru 73 starfsmenn fjármálafyrirtækja með þrjár milljónir eða meira á mánuði í laun.

Magnús Jónsson, forstjóri Atorku Group, var launahæstur forstjóra í fyrirtækjum með 12,1 milljón á mánuði. Magnús Bjarnason, forstjóri Capacent Glacier var með 9,7 milljónir og Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Stoða með 9,2 milljónir á mánuði.

Tryggvi Þór Herbertsson, nýorðinn alþingismaður og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, var tekjuhæstur í hópi alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands með 2,9 milljónir á mánuði.  Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var með 1.839 þúsund á mánuði.

Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi í Árborg, er tekjuhæstur sveitarstjórnarmanna með 2.456 þúsund á mánuði og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍS, tekjuhæstur starfsmanna hagsmunasamtaka og aðila vinnumarkaðarins.

Könnun blaðsins byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Blaðið setur þann fyrirvara að um sé að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2008 og þær þurfi ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn geti falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Þá kunni í launum sumra að vera innifaldir kaupaukar vegna ársins 2007.

Þá er tekið fram að í tölunum séu ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Reynt var að skrá menn í flokka samkvæmt þeim störfum sem þeir gegna nú.  Einnig er minnt á að nokkuð hafi verið rætt um villur í álagningu skattstjóra og að kærufrestur sé ekki runninn út. Álagning sé því ekki endanleg.

Forsíða Frjálsrar verslunar
Forsíða Frjálsrar verslunar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert