Margt um manninn

Mikill mannfjöldi er í garðinum.
Mikill mannfjöldi er í garðinum. Eggert Jóhannesson

Mikill mannfjöldi er nú staddur í rjómablíðu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en þar munu Stuðmenn stíga á stokk innan skamms og hefja upp raustir sínar.

Hin árlega Verslunarmannahelgarhátíð Stuðmanna og gesta í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum er nýhafin og skoppuðu þær Skoppa og Skrýtla, Lúsí og Bakari Svakari á sviðið ásamt Glanna glæp úr Latabæ.

Þegar yngsta kynslóðin verður búin að fá eitthvað fyrir sinn snúð munu Ljótu hálvitarnir frá Húsavík kveða sér hljóðs og loks stekkur hljómsveit allra landsmanna upp á svið, en þetta er sjötta árið sem Stuðmenn koma fram í Fjölskyldu– og húsdýragarðinum um Verslunarmannahelgina. 

Kynnir á tónleikunum er Valgeir Guðjónsson sem verður með sérstakt tónlistarinnlegg auk þess að leika með sínum gömlu félögum í Stuðmönnum. Söngkona sveitarinnar er Stefanía Svavarsdóttir sem er 16 ára gömul.

Samkoman í garðinum hefur alltaf verið vel sótt og áætla aðstandendur að gestafjöldi hafi að jafnaði verið á bilinu 10 til 20 þúsund manns sem gerir þetta að einni stærstu skemmtun Verslunarmannahelgarinnar.

Mikill mannfjöldi er nú í Húsdýragarðinum en þar eru Stuðmenn …
Mikill mannfjöldi er nú í Húsdýragarðinum en þar eru Stuðmenn m.a með tónleika í dag. Mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert