Mannanna ekki lengur þörf

Stjórn FME hefur ákveðið að fjórir skilanefndarmenn skuli víkja úr …
Stjórn FME hefur ákveðið að fjórir skilanefndarmenn skuli víkja úr nefndum fyrir 15. ágúst. Morgunblaðið/Eyþór

Fjórum skilanefndamönnum var sagt upp störfum nú fyrir helgi. Tveir hafa nú þegar látið af störfum að eigin ósk. Ráðningar þeirra voru alltaf tímabundnar, segir forstjóri FME.

Fjórir skilanefndamenn í Landsbanka, Glitni og Kaupþingi fengu bréf frá Fjármálaeftirlitinu nú fyrir helgi þar sem farið er fram á að þeir hætti störfum fyrir 15. ágúst. Allir mennirnir voru fyrrverandi yfirmenn í bönkunum þremur fyrir bankahrunið í október í fyrra og sætti ráðning þeirra í skilanefndir talsverðri gagnrýni á sínum tíma. Þetta voru þeir Guðni Níels Aðalsteinsson, yfirmaður fjárstýringar hjá Kaupþingi, Kristján Óskarsson, yfir viðskiptasviði Glitnis, Ársæll Hafsteinsson framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Landsbankans og Sigurjón Geirsson sem var yfir innri endurskoðun Landsbankans. Tveir mannanna hafa þegar látið af störfum, að eigin ósk.

Að sögn Ríkisútvarpsins setti uppsögn mannanna samningafundi með kröfuhöfum í nokkur uppnám á föstudag og segir að fulltrúar kröfuhafa Landsbankans hafi staðið upp í fússi, hótað málsóknum og flogið af land brott.

„Það lá alltaf fyrir að starfi þeirra myndi ljúka á ákveðnum tíma, þeir voru ráðnir vegna þekkingar sinnar á bankanum og nú er ekki lengur þörf á þeirra þekkingu. Þeirri vinnu sem þeir hafa komið að er að ljúka,“ segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME. Hann segist  ekki eiga von á því að brottför starfsmannanna setji einhver strik í reikninginn varðandi þá vinnu sem eftir er. „Það er eðlilegt að það verði eitthvað uppnám þegar einhver hættir en það er ekki neitt sem fólk jafnar sig ekki á," segir Gunnar. Samningaviðræðurnar séu á lokastigi og því hafi stjórn FME ekki talið að það væri frekari þörf á starfskröftum mannanna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert