Segir Ísland geta staðið við skuldbindingar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mlb.is/Eggert

„Eva Joly lýsir í greininni yfir áhyggjum af því að ýmis ríki í Evrópusambandinu virðist ófær um að draga lærdóm af hruni íslenska efnahagskerfisins, kerfis sem þau sjálf tóku þátt í að móta. Ég tek undir þær áhyggjur Joly og tel alveg ljóst að það þarf miklu skýrari lagaramma um fjármálakerfið í Evrópu,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um grein Evu Joly sem birtist í Morgunblaðinu, Daily Telegraph, Le Monde og Aftenposten um helgina.

Í greininni gagnrýnir Eva Joly meðal annars harðlega fullyrðingar Gordons Brown, forsætisráherra Breta, um að ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á málinu. Jóhanna segir að til greina komi að taka upp viðræður við Breta að nýju um málið. „Það getur vel gerst seinna meir ef við teljum það heppilegt fyrir málstaðinn. Icesave-málið er nú í höndum þingsins og stjórnvöld ætla ekki að grípa fram fyrir hendur þess en ég útiloka ekki að viðræður verði teknar upp að nýju síðar.“

Jóhanna segist ennfremur vera sammála því sem Joly sagði í greininni um að aðildarríkin, Bretar og Hollendingar, gætu ekki undanskilið sig allri ábyrgð á því sem gerðist í þeirra eigin lögsögu í Icesave-málinu.

Jóhanna segir mörg áhugaverð sjónarmið koma fram í grein Joly, meðal annars lýsingu hennar á aðdraganda efnahagshrunsins. „Hún lýsir í greininni í raun gjaldþroti óheftrar markaðshyggju. Ég get jafnframt alveg tekið undir þau orð hennar að það sé ósanngjarnt að svona kerfishrun, sem er að hluta til alþjóðlegt, lendi með svo miklum þunga á Íslandi.“

Eva Joly.
Eva Joly. Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert