Enginn þingmanna mættu

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta …
Þingmenn Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir. Ekkert þeirra mætti á félagafundinn fyrr í kvöld. Ómar Óskarsson

Enginn fjögurra þingmanna Borgarahreyfingarinnar mætti á almennan félagsfund sem boðað hafði verið til í Hafnarhúsinu í kvöld. Þetta kom fram í seinni kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Til fundarins var boðað með skömmum fyrirvara, en hann er þó haldinn á venjulegum fundartíma félagsfunda. Rúmlega þrjátíu félagsmenn mættu til fundarins

Yfirskrift fundarins var „Klofningur þinghóps Borgarahreyfingarinnar“ en í fundarboði kom fram að taka ætti fyrir skýrslu stjórnar þar sem fjallað væri um samskiptaörðugleika milli þinghóps og stjórnar og klofning þinghóps.

Ljóst er að samskipti þingmanna hreyfingarinnar hafa verið stirð síðan þrír af fjórum þingmönnum flokksins greiddu atkvæði gegn ESB-aðildarviðræðum fyrir tæpum þremur vikum. Þráinn Bertelsson, sem einn þingmanna greiddi atkvæði með aðildarviðræðum, sagði í síðdegisútvarpi Rásar tvö fyrr í dag að hann teldi að hinir þingmennirnir þrír, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, ættu að segja af sér þingmennsku og hleypa varamönnum sínum að til að skapa sátt í starfi þingflokksins.  

Á vef Borgarahreyfingarinnar gefur að líta athugasemdir frá nokkrum félagsmönnum sem fannst boðun fundarins hafa borið að með oft stuttum fyrirvara, en stjórnarmenn benda á að fundurinn sé á venjulegum fundartíma sem er fyrsta og þriðja fimmtudag í mánuði. 

Í athugasemd sem Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður, gerði á vefnum kemur fram að hún hafi ekki séð sér fært að mæta á fundinn sökum þess hvað hann hafi verið boðaður með stuttum fyrirvara.

„Ég hef sagt það opinberlega og segi það líka við ykkur að mér finnst best að ræða við fólk án milliliða og mér finnst ótækt að fjalla um málefni Þráins án þess að hann sé á staðnum til að svara fyrir sig. Við lögðum til vegna þess að öll okkar athygli er á Icesave (Þór er til að mynda að fara á fund þar af lútandi í kvöld með sinni nefnd) að fundi yrði frestað um viku – þá væri búið að taka Icesave út úr nefnd og við hefðum betri tök á að sinna þessu málefni. Mér finnst ástæðulaust að vera að gera úlfalda úr mýflugu – en það er einmitt það sem þetta vandamál er miðað við Icesave,“ skrifar Birgitta í athugasemd sinni. 


mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert