Fleiri sjá sér hag í innbrotum

Margir innbrotsþjófar láta hvorki dagsbirtu né þjófavarnir aftra sér.
Margir innbrotsþjófar láta hvorki dagsbirtu né þjófavarnir aftra sér. Þorkell Þorkelsson

Fjöldi tilkynntra innbrota var að meðaltali 250 á mánuði fyrstu sjö mánuði ársins. Það er ríflega 70% meira en á sama tímabili í fyrra þegar meðaltalið var um 150 innbrot. Fjöldinn var svipaður árið 2007 en meðaltalið var þá 168 innbrot á mánuði. Þetta kemur fram í upplýsingum lögreglu höfuðborgarsvæðisins um þróun á fjölda innbrota.

Fjöldi innbrota hélst nokkuð stöðugur á árinu 2007 og fram á mitt ár 2008. Þá tók tilkynningum að fjölga verulega og stóð sú fjölgun allt fram til loka ársins. Fjöldinn hefur verið stöðugur það sem af er ári, en innbrotin eru mun fleiri í hverjum mánuði en þekkst hefur áður.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvað veldur þessari mikilli aukningu innbrota, sérstaklega í ljósi þess að innbrotum fór að fjölga verulega fyrir hrun bankanna. 

Lögregla hefur greint frá því, að það eru helst tvær tegundir af innbrotþjófum. Skipulagðir innbrotsþjófar sem sitja um hús og hafa hugsanlega kortlagt heilu hverfin. Og hins vegar eru það smáglæpamennirnir, fíkniefnaneytendurnir, sem vantar fjármagn í hvelli fyrir vímuefnum.

Viðbrögð ættu að vera ofarlega á lista lögreglu

Í mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum sem gefin var út í febrúar síðastliðnum segir m.a.: „Erfitt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi mun á næstu árum setja mark sitt á þá skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi. Umskiptum þessum fylgir að margir nýir möguleikar munu skapast fyrir afbrotamenn.“

Einnig segir ímatinu að innlendir og erlendir hópar stundi skipulögð innbrot og þjófnaði hér á landi. Viðbrögð við slíkri starfsemi ættu að vera ofarlega á verkefnalista lögreglunnar. Markaður fyrir stolnar vörur muni stækka í kjölfar efnahagshrunsins og því muni fleiri sjá sér hag í því að brjótast inn og stela.

„Vitað er að erlendir afbrotamenn koma gagngert til Íslands í þeim tilgangi að skipuleggja og fremja þjófnaði,“ segir í matinu og einnig að greiningardeildin telji að slík starfsemi verði áfram áberandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert