Þráinn meira en velkominn

Margrét Tryggvadóttir, Borgarahreyfingunni og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðsflokki.
Margrét Tryggvadóttir, Borgarahreyfingunni og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðsflokki. mbl.is/Ómar

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir Þráinn Bertelsson flokksbróðir sinn meira en velkominn í samstarfið á ný í pistli á heimasíðu sinni. Margrét kaus að sækja ekki félagsfund Borgarahreyfingarinnar í kvöld þar sem ræða átti klofninginn innan flokksins.

Margrét segir Þráinn ítrekað hafa hundsað fundarbeiðni flokksmanna frá því að ágreiningur í Evrópumálum kom upp. Henni þyki leitt „að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær“ þar með talið á vefsíðunni eyjan.is í dag. Von hennar sé „að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum“.

Bréf Margrétar til flokkssystkina sinna er svohljóðandi: 

„Kæru félagar,

Í hádeginu í dag vorum við sem skipum þinghóp Borgarahreyfingarinnar boðuð á félagsfund nú í kvöld til að ræða klofning þinghópsins. Ég hef reynt að hafa það sem forgangsatriði að sækja félagsfundi Borgarahreyfingarinnar þótt ég hafi ekki komist á þá alla.

Það sem hér á hins vegar að ræða eru yfirlýsingar Þráins Bertelssonar í fjölmiðlum um að hann vilji ekki tala við okkur hin sem skipum þinghópinn með honum. Ég get engan veginn tekið að mér að svara fyrir hann og hans yfirlýsingar, hann verður að sjá um það sjálfur. Því tók ég þá ákvörðun að koma ekki á fundinn í kvöld, auk þess sem ég er ósátt við þann stutta fyrirvara sem ég fékk.

Ég get hins vegar greint frá minni hlið málsins. Forsöguna þekkja flestir en Þráinn var og er ósáttur við gjörning okkar við ESB atkvæðagreiðsluna. Það er hins vegar ekki rétt að við höfum ráðist í þá aðgerð án samráðs við hann. Við ræddum við hann áður en við létum til skarar skríða og hann gerði okkur ljóst að hann vildi ekki taka þátt í þessu og hélt ég að hann skyldi fullkomnlega á hverju afstaða okkar byggðist og virti ákvörðun okkar.

Samskiptin við hann þá daga sem hasarinn stóð yfir og fram yfir atkvæðagreiðsluna voru öll eins og best verður á kosið. Þráinn fór svo í útvarpsviðtal eftir atkvæðagreiðsluna þar sem hann sagðist ekki vita hvort hann hyggðist starfa með hinum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar áfram en ætlaði að taka sér frest fram yfir helgi til að melta það.

Mér fannst meira en sjálfsagt að gefa honum þann tíma. Sá tími hefur dregist á langinn.

Þráinn Bertelsson hefur verið boðaður á alla þinghópsfundi okkar síðan atkvæðagreiðslan fór fram en ekki mætt á einn einasta. Hann svaraði fundarboði á þann fyrsta, á mánudaginn 20. júlí, að hann myndi ekki mæta á þinghópsfundi en önnur svör hafa alla vega ekki borist mér. Við höfum ítrekað beðið um fundi með honum, sum okkar hafa hringt en aðrir sent bréf. Hann hefur aðeins einu sinni talað við okkur öll þrjú saman síðan þetta var en það var í matsal þar sem við báðum hann að ræða við okkur þingmáls sem kemur til kasta allsherjarnefndar en þar neitaði hann að ræða málið við okkur og var stuttur í spuna.

Mér þykir afar vænt um Þráinn og þætti miður ef hann sæi sér ekki fært að starfa með okkur. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig en að mínu mati er Þráinn meira en velkominn í samstarfið á nýjan leik. Þá þykir mér miður að lesa umræðuna og þá útreið sem hann fær t.d. á Eyjunni í dag og ég vona að félagar í hreyfingunni hafi ekki tekið þátt í þeim ærumeiðingum.

Verst þykir mér þó að þetta ósætti skuli taka frá okkur tíma og orku þegar svo margt annað skiptir svo miklu meira máli. Nú vofir Icesave yfir okkur og öllu máli skiptir að koma því máli í einhvern farveg sem við getum lifað við sem þjóð. Þótt málið sé enn ekki til lykta leitt þá held ég að það dyljist engum að þar hafi Borgarahreyfingin, þingmenn sem grasrót, þegar unnið þrekvirki þótt deila megi um sumar aðferðirnar.

Við skulum ekki gleyma því að þessum “glæsilega” samningi átti að lauma í gegnum þingið án þess að þingmenn fengju færi á að kynna sér hann og meiri hluti þingheims var sáttur við það vinnulag á þeim tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert