Sáttmálinn marklaust plagg

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.

„Forsendur stöðugleikasáttmálans eru brostnar. Hann er marklaust plagg og var raunar allt frá upphafi, innihaldið var ekkert. Það var í raun verið að fífla launþega með því að semja um 6.500 króna launahækkun og skella um leið á þá kjaraskerðingum upp á tugi þúsunda, launalækkunum, gjaldskrárhækkunum og fleiru,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur þingaði í morgun með forseta bæjarstjórnar Akraness og oddvita Framsóknarflokksins í bæjarstjórn vegna fyrirhugaðra sparnaðaráforma í rekstri bæjarins.

Þeirra á meðal eru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness, VLFA, munu hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa. Starfsmenn munu samkvæmt tillögunum lækka í launum um 10% til 15%.

Formaður VLFA sendi fyrir nokkru bæjarráði og bæjarstjórn Akraness bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur vegna sparnaðaraðgerðanna. Í þessum vinnuhópi auk bæjaryfirvalda yrðu fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna.

Oddvitar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akraness buðu formanni VLFA á sinn fund í morgun til að ræða fyrirhugaðar aðgerðir.

Sanngirni verði gætt

„Þetta var svo sem ágætur fundur. Ég gerði grein fyrir afstöðu okkar til tillagnanna og gerði alvarlegar athugasemdir við þessa fyrirætlan. Það hefur alltaf verið okkar skilningur að það ætti að slá skjaldborg um þá tekjulægstu. Viðmiðunartalan var 300 þúsund krónur en við höfum dæmi um einstakling sem er með um 280 þúsund krónur í mánaðarlaun sem þarf að sæta skerðingu upp á tæplega fjörutíu þúsund krónur á mánuði. Þetta er ekki sú sanngirni sem við gerum kröfu um að gætt verði,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

Stéttarfélagið hefur kallað eftir upplýsingum um hvað forstöðumenn bæjarstofnana, kennarar, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins þurfa að leggja af mörkum í hagræðingunni. Vilhjálmur segir að verið sé að vinna frekari tillögur á vegum bæjarins og ákveðið hafi verið að funda á ný þegar þeirri vinnu lýkur.

„Það er með hreinustu ólíkindum að það hafi verið undirritaður stöðugleikasáttmáli sem ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin, samtök atvinnulífsins og sveitarfélög vitna ítrekað í. Ég velti því fyrir mér hvort það sé stöðugleiki að lækka laun starfsmanna um tugi þúsunda, hækka gjaldskrár sveitarfélaga, jafnvel um tugi prósenta á sama tíma og launafólk má sæta gríðarlegri skerðingu vegna hagræðingaraðgerða. Er þetta það sem menn kalla stöðugleika og státa sig af?;“ spyr formaður VLFA.

Jarðsyngur stöðugleikasáttmálann

Vilhjálmur Birgisson segist jarðsyngja stöðugleikasáttmálann, allar forsendur hans séu foknar út í veður og vind.

„Þetta er bara í mínum huga algjörlega marklaust plagg. Ég tók ekki þátt í gerð þessa plaggs og ég hef alla tíð verið mótfallinn því að fresta umsömdum launahækkunum. En minn skilningur var sá að með undirritun stöðugleikasáttmálans kæmu allir að borðinu. Það væri ekki hægt fyrir ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og svo framvegis, að varpa öllum sínum vanda beint út í verðlagið á sama tíma og launþegar horfa fram á gríðarlegt tekjutap og stóraukna greiðslubyrði. Þetta er enginn stöðugleiki,“ segir formaður VLFA.

Hann segir að allir verði að koma að borðinu. Það gangi ekki upp að olíufélögin tilkynni um hækkun á eldsneytisverði upp á 4 krónur hvern lítra í dag, meðan starfsmennirnir sem dæla bensíninu þurfi að gefa eftir af sínum launum. Þetta fari beint út í vísitöluna og íbúðalán almennings hækki.

Engin von gefin 

„Ég óttast að ástandið á næstu vikum og mánuðum eigi eftir að verða alveg skelfilegt. Það styttist í að frystingum lána ljúki og öðrum skammtímaaðgerðum sem gripið var til. Þá mun fólk almennt ekki geta staðið undir greiðslubyrðinni. Og það er með ólíkindum að hlusta á félagsmálaráðherra tilkynna fólki það að ekki verði um neinar leiðréttingar á skuldum að ræða. Fólki er ekki gefin nein von. Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, þau ætla bara að varpa vandanum yfir á launþegana og heimilin í landinu. Þeir tekjulægstu eiga að sitja eftir í launum með stóraukna greiðslubyrði. Þetta endar varla nema með stórri bombu. Ég held að verkalýðshreyfingin ætti að vakna, þetta gengur ekki upp,“ segir formaður VLFA.

Hann segir að það verði að koma fólki til hjálpar. Með einum eða öðrum hætti þurfi að leiðrétta gengistryggð lán sem fólk tók. Þar komi til greina að færa gengisvísitöluna niður og gefa fólki kost á að breyta gengistryggðum lánum í krónulán.

„Það verður a.m.k. að gera eitthvað því fólkið hefur enga möguleika á að mæta sínum vanda með aukinni vinnu eða öðru slíku, því er ekki til að dreifa. Þvert á móti er verið að þrengja að möguleikum fólks til þess, eins og dæmin sanna hér á Akranesi“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Skrifað var undir stöðugleikasáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu 25. júní sl.
Skrifað var undir stöðugleikasáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu 25. júní sl. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert