Skatturinn fær að kyrrsetja eignir

Ríkisstjórnin vill að skattrannsóknarstjóri fái auknar heimildir til að kyrrsetja eignir þeirra sem liggja undir grun um skattsvik. Tilefnið er ekki síst frettir af milljarða fjármagnsflutningum frá Íslandi í þekkt skattaskjól.

Frumvarp um heimildir skattrannsóknarstjóra til að kyrrsetja eignir var  samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.  Jóhanna Sigurðardóttir segir að ráðherrar hafi átt fundi með sérstökum saksóknara og skattayfirvöldum um hvað þurfi til að herða tökin í rannsókn brota í tengslum við efnahagshrunið. Þá er að störfum sérstakur starfshópur sem skoðar skattalagabrot sem framin voru í tengslum við hrunið.

Þetta er aðeins hluti af þeim aðgerðum sem ráðast á í á næstunni til að auka heimildir eftirlits og rannsóknarstofnanna. Jóhanna segist vonast til að réttlætinu verði fullnægt sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert