Enex Kína í sæng með Sinopec

Kínverska risafyrirtækið Sinopec og Enex Kína, jarðvarmafélag í eigu Geysis Green Energy (75%) og Reykjavik Energy Invest (25%), hafa tekið höndum saman um sameiginlega uppbyggingu jarðvarmaveitna í þessu fjölmennasta ríki heims, sem telur um 1.300 milljónir manna.
Sinopec fer með ráðandi hlut í félaginu (51% hlutafjár) en Enex Kína með afganginn.

Samningurinn þykir viðurkenning á íslenskri jarðhitatækni í Kína en þar ber hæst uppbyggingu Enex Kína á jarðvarmaveitu í Xianyang í Shaanxi-héraði, borg með um hálfa milljón íbúa.

Sú veita náði því marki í fyrra að jafnast á við hitaveituna í Reykjanesbæ að umfangi og er stefnt að því að hún fimmtánfaldist, úr rúmlega milljón upphitaðra húsnæðisfermetra nú, í um 15 milljónir húsnæðisfermetra innan nokkurra ára. Verkefnin geta því verið gríðarstór en umfangið fer og mun fara eftir aðstæðum hverju sinni.

Næsta verkefnið í Hebei-héraði

Fyrsta sameiginlega verkefni fyrirtækjanna er að halda áfram uppbyggingunni í Xianyang. Næsti áfangi verður svo í Xiong-sýslu í Hebei-héraði þar sem áætlað er að hita upp 300.000 fermetra með jarðvarmaveitu þegar á þessu ári og svo milljón fermetra 2010. Önnur verkefni sem fyrirhuguð eru eru í Shandong-héraði, skammt frá höfuðborginni Peking, en Jiang Zhu, svæðisstjóri Geysis Green Energy í Asíu, með aðsetur í Shanghai, segir aðspurður ekki tímabært að upplýsa um frekari verkefni að svo stöddu.

Eitt stærsta fyrirtæki heims

Kínverska ríkisfyrirtækið Sinopec er 9. stærsta fyrirtæki heims, ef horft er til markaðsvirðis, samkvæmt árlegum lista tímaritsins Fortune, Global 500, sem birtur var í ársbyrjun. Á vefsíðu Fortune segir að Sinopec hafi um 80% hlutdeild á kínverska olíumarkaðnum. Starfsmenn eru sagðir 639.690 en ef dótturfyrirtæki eru talin með fer fjöldi þeirra yfir milljón. Umsvifin eru gríðarleg. Veltan á fjárhagsárinu 2008 var tæpir 208 milljarðar dala eða sem svarar 26.135 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Þá var hagnaður ársins 2008 um 246 milljarðar króna eða um 53% minni en 2007, sem skýrist af hækkandi innkaupsverði á olíu. Fyrirtækið er í senn olíu- og gasvinnslurisi og umsvifamikið í efnaiðnaði. Sinopec Star er dótturfélag olíurisans en það hefur á stefnu sinni að endurnýjanleg orka verði ein af þremur meginstoðunum í rekstri þess.

Nánar er fjallað um málið í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert