Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla

mbl.is/Heiddi

Saving Iceland fordæmir það sem samtökin kalla einhliða fréttaflutning fjölmiðla af mótmælum við iðnaðarráðuneytið í gær. Samtökin segja lögreglu stunda rógburð og fjölmiðla ekki minnast á ofbeldi sem lögreglan hafi beitt óspart gegn mótmælendum. „Þess í stað hafa fjölmiðlar óspart birt rógburð lögreglunnar um að sparkað hafi verið í höfuð lögreglumanns og lögreglunni ógnað með járnstöngum, án þess að nokkuð myndefni bendi til þess að slíkt hafi átt sér stað,“ segir í yfirlýsingu Saving Iceland sem send var út í nótt.

Myndband Saving Iceland af atburðum

Yfirlýsing Saving Iceland

„Í gær, Föstudaginn 7. ágúst mótmælti umhverfishreyfingin Saving Iceland við Iðnaðarráðuneytið á sama tíma og undirritun fjárfestingarsamnings ríkisstjórnarinnar og Norðuráls vegna álvers í Helguvík átti sér stað. Þegar mótmælunum var að ljúka mætti lögreglan á svæðið, handtók 5 einstaklinga og gekk sérstaklega alvarlega í skrokk á einum þeirra. Flestir fjölmiðlar hafa sagt frá atvikinu en ekki minnst á ofbeldi lögreglunnar. Þess í stað hafa fjölmiðlar óspart birt rógburð lögreglunnar um að sparkað hafi verið í höfuð lögreglumanns og lögreglunni ógnað með járnstöngum, án þess að nokkuð myndefni bendi til þess að slíkt hafi átt sér stað. Saving Iceland hafnar þessum ásökunum algjörlega og fordæmir einhliða fréttaflutning fjölmiðla.

Samningurinn sem skrifað var undir í dag gerir ráð fyrir ríkisstyrkjum til álversins í formi skattaafsláttar sem nemur 16,2 milljónum Bandaríkjadala, þ.e. tveimur milljörðum íslenskra króna, og veitir Norðuráli undanþágur frá iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi og rafmagnsöryggisgjaldi. Auk þess munu sérreglur gilda gilda um stimpilgjöld og skipulagsgjald og öryggisákvæði gilda varðandi upptöku nýrra skatta. Þær losunarheimildir sem liggja fyrir leyfa 150.000 tonna álver í Helguvík, umhverfismat 250.000 tonn en Norðurál hyggst reisa 360.000 tonna álver og samningurinn sem undirritaður var í dag tryggir fyrirtækinu rétt til þess. (1) Rafmagn til álversins hefur ekki verið tryggt og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra hefur sagt opinberlega að ekki sé til næg orka á Reykjanesinu til að keyra álverið áfram. (2) Katrín Júlíusdóttir hefur að sama skapi tekið vel í hugmyndir um að Landsvirkjun selji orku úr fyrirhugðum virkjunum Þjórsár til álversins í Helguvík.(3)

Álframleiðsla er mengandi, hún eyðileggur vistkerfi og drepur samfélög manna og dýra. Álframleiðsla er þess fyrir utan algjör óþarfi enda þegar til nóg af endurnýtanlegu áli í heiminum. Álfyrirtækin sem starfa á Íslandi eru gegnsýrð af hömlulausri græðgi og miskunnarleysi í garð alls þess sem mögulega gæti staðið í veginum fyrir gróða. Þau hafa gerst sek um alvarleg mannréttindabrot og umhverfisspjöll hvar sem þau koma við í heiminum.  Atvinnustjórnmálamenn hafa ítrekað fórnað hugsjónum sínum (ef einhverjar voru til að byrja með) fyrir atkvæði þeirra sem hafa látið glepjast af lygavél áliðnaðarins og voninni um áframhaldandi launatékka.

Þess vegna fórum við í gær niður að Iðnaðarráðuneyti með grænt skyr í fötum og borða sem á stóð: ,,Stóriðjan græðir - Íslandi blæðir”. Skyrinu var slett yfir lúxusbifreið iðnaðarráðherrans og á veggi byggingarinnar. Borðinn var strengdur gengt ráðuneytinu.

Fyrir þessa aðgerð var fólki úr hópnum misþyrmt af lögreglu; 5 sviptir frelsinu og hnepptir í gæsluvarðhald. Lögreglumaður gekk ítrekað í skrokk á einni þeirra handteknu; tók  hana margsinnis hálstaki með þeim afleiðingum að hún átti erfitt með andardrátt, hrinti henni í jörðina og steig að lokum ofan á hana. Viðbrögð annarra sem voru á staðnum – tilraun til að stöðva lögregluofbeldið – kallaði fram fjölda kylfuhögga af hendi lögreglu.

Fjölmiðlar hafa síðan tekið virkan þátt í áróðursmaskínu þeirra sem hafa hagsmuna að gæta af undirrituninni og hafa borið upp á okkur upplognar sakir. Flestir fjölmiðlar staðhæfa að við höfum sparkað í höfuð lögreglumanns og ráðist gegn lögreglunni með járnrörum og öðrum bareflum.
Hvoru tveggja er hrein lygi og afhjúpar enn of aftur goðsögnina um hlutlausa fjölmiðlun hér á landi.

Ekkert myndefni eða önnur sönnunargögn sýna fram á að Saving Iceland hafi gert það sem fjölmiðlar staðhæfa. Það virðist sem orð lögreglunnar - auk afar vefengjanlegrar frásagnar eins ,,sjónarvotts“ - um atburði dagsins nægi fjölmiðlum til þess að birta það sem þeir álíta rétta umfjöllun um málið. Það er eðlilegt að fjölmiðlar tali við alla sem að málinu koma en þegar orð lögreglunnar eru notuð á þann veg að um heilagan sannleika sé að ræða, er óumflýjanlegt að spyrja sig fyrir hagsmuni hverra fjölmiðlar starfa. Vefsíða Morgunblaðsins birti til að mynda frétt með fyrirsögninni ,,Sparkað í höfuð lögreglumanns“, vitnað beint í orð lögreglunnar, en sýnir svo engin sönnurgögn málflutningi sínum til stuðnings. Svipaða sögu má segja um umfjöllun flestra fjölmiðla um málið.

Við vinnslu svona æsifréttamennsku notast fjölmiðlar við þá tækni að leita að viðmælendum sem segja þá sögu sem fjölmiðlarnir vilja sjálfir heyra og klippa svo eftir hentugleika. Við hjá Saving Iceland höfum í okkar fórum fjölda mynda og myndbanda sem sýna greinilega að ofangreindar sakir eiga ekki við rök að styðjast. Myndefnið sýnir hóp fólks bregðast við þeirri siðferðislegu skyldu sinni að hlaupa til varnar manneskju sem verið er að misþyrma.

Sannleikurinn er sá að töluvert ofbeldi átti sér stað við Iðnaðarráðuneytið í dag; í fyrsta lagi meðferð lögreglunnar á þeim sem voru handteknir og í öðru lagi undirritun fyrrgreinds samnings, sem er mun alvarlegri en það ofbeldi sem logið er upp á okkur. Með þessari fréttamennsku er vísvitandi verið að hylja yfir raunverulega ofbeldið. Og á sama tíma er reynt að kalla fram sundrung og ósamstöðu meðal þeirra sem barist hafa með misjöfnum hætti gegn stóriðjuvæðingu Íslands. Fjölmiðlar hafa til til dæmis birt fréttir um fordæmingu Ómars Ragnarssonar á ofbeldinu sem sagt er að hafi átt sér stað – enn og aftur án þess að birta nokkur gögn ofbeldinu til sönnunar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjölmiðlar reyna að draga fram þessa mynd af Saving Iceland og öðrum þeim sem styðjast við beinar aðgerðir í andófi sínu gagnvart eyðileggingu náttúrulega umhverfisins og yfirgangi kapítalista og stjórnvalda. Í júlí  2007 fullyrti fréttastofa Ríkissjónvarpsins að þeir sem tækju þátt í aðgerðum Saving Iceland fengju borgað fyrir þátttöku sína, jafnvel bónusa fyrir að verða fyrir frelsisskerðingu lögreglunnar. Engin sönnunargögn voru birt málinu til stuðnings og þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar talsmanna Saving Iceland um ósannindi Ríkissjónvarpsins fékk fréttin að standa óbreytt. Þegar Saving Iceland kærði svo RÚV til Siðanefndar Blaðamannafélagsins komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekkert væri út á fréttaflutninginn að setja. Það eru varla miklar líkur á því að önnur niðurstaða fengist í dag ef okkur dytti í hug að fara sömu leið með fréttaflutning dagsins.

Með þessu bréfi sendum við myndir og myndband sem sýna fram á ósannindi lögreglu og fjölmiðla. Það er ekki ósanngjörn krafa af okkar hálfu að okkar sjónarmið komist til almennings og að notast verði við frásögn okkar og sönnunargögn í frekari fréttaumfjöllunum. Það er minnsta mögulega krafa okkar til þeirra stofnanna sem kenna sig við fjölmiðlun.“

Skilaboð mótmælenda eru skýr.
Skilaboð mótmælenda eru skýr. mbl.is/Jakob Fannar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert