Andstaða líka í Samfylkingu

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er þau …
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er þau kynntu samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna í vor mbl.is/Árni Sæberg

Deilurnar um Icesave á stjórnarheimilinu endurspegla áhyggjur af samstarfinu þegar tekist verður á um niðurskurð ríkisútgjalda. Andstöðu við Icesave er líka að finna í Samfylkingunni. 

„Taugatitringur.“ ,,Mjög þungur róður.“ „Í raun hefur málið ekkert þokast áfram síðustu þrjár vikur.“ Þannig lýstu viðmælendur innan stjórnarflokkanna í gær því rafmagnaða ástandi sem uppi er vegna óvissunnar um afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgðinni vegna Icesave-samkomulagsins. Bent er á að stærsta vandamálið sé að ríkisstjórnin er klofin í málinu. Jafnvel þótt hún kæmist með naumindum í gegnum þennan brimskafl, en án stuðnings Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra og nokkurra þingmanna Vg, yrði það prófsteinn á áframhaldandi samstarf flokkanna. Framundan sé mjög erfið glíma við annað vandaverk, ekki síst við risavaxinn niðurskurð ríkisútgjalda.

Minna hefur borið á andstöðu innan Samfylkingarinnar við samkomulagið, en hún er þó til staðar skv. heimildum Morgunblaðsins. Frá fyrsta degi hafa einstakir þingmenn gert mönnum ljóst að þeir gætu ekki samþykkt ákveðin atriði í samkomulaginu óbreytt. Nauðsynlegt sé að styrkja ákveðnar forsendur ríkisábyrgðarinnar, ekki síst endurskoðunarákvæðið, sem sé of veikburða, og að styðjast verði við svokölluð Brussel-viðmið.

Samkvæmt heimildum innan annars stjórnarflokksins hafa átt sér stað óformleg samskipti við viðsemjendurna í Bretlandi og Hollandi. Þreifað hafi verið á hvaða staða kæmi upp ef frumvarpið fer ekki í gegnum þingið. Fengust vísbendingar um að þá yrði brugðist mjög hart við og því mætti búast við meiri hörku í viðræðunum ef taka þyrfti þær upp á nýjan leik. Viðsemjendurnir hafi hins vegar sýnt skilning á því að þingið þyrfti að setja ákveðna fyrirvara til að koma frumvarpinu í gegn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert