Aukin leiðni í Markarfljóti

Markarfljót. Á myndinni sjást Eyjafjallajökull og Stóri-Dímon.
Markarfljót. Á myndinni sjást Eyjafjallajökull og Stóri-Dímon. www.mats.is

Aukið magn jarðhitaefna hefur mælst í Markarfljóti og leiðni þar með aukist.  Að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra mældist leiðni 150 míkrósímens í Markafljóti í morgun, sem venjulega mælist 40 míkrósímens.  

Brennisteinsmengun eykst með leiðninni og þar með brennisteinsfýla, sem finnst víða meðfram ánni.

„Það var svolítið mikil brennisteinsbræla hér í nótt en það þarf ekki að segja manni neitt. En lyktin er horfin að mestu núna. Það er hins vegar hlaup í Fremri Emstruá, hún er sennilega að ryðja sig fram,“ segir Kristján Guðmundsson hjá lögreglunni á Hvolsvelli.

Alkunna er að lítil jökulhlaup komi í Fremri Emstruá og er trúlegt að um slíkt hlaup sé að ræða. Í ágúst 1988 tók af göngubrú af Fremri Emstruá í slíku hlaupi. Brúin var síðar endurbyggð á öðrum stað.

Lögreglan segir, að ekki sé mikil aukning á vatnsmagni og ekki líkur á að það hækki í Markarfljóti svo hætta stafi af.

Reglulega er fylgst með vatnshæðabreytingum í Markarfljóti og mun Veðurstofa Íslands, lögreglan á Hvolsvelli og almannavarnadeildin fylgjast með framvindunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert