Fundi fjárlaganefndar lokið

Frá fundi fjárlaganefndar fyrr í kvöld. Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn …
Frá fundi fjárlaganefndar fyrr í kvöld. Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson, Ólöf Nordal, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðbjartur Hannesson og Árni Þór Sigurðsson. Ómar Óskarsson

Formlegum fundi fjárlaganefndar lauk laust upp úr kl. 23 í kvöld og hefur næsti fundur verið boðaður kl. 9 í fyrramálið. Af samtölum við fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu má ljóst vera að auknar líkur eru nú taldar á því menn nái saman í fyrirvörunum við Icesave-samninginn og hægt verði að afgreiða málið úr nefnd fyrir helgi, þó enn sé of snemmt að fullyrða að nefndarálitið verði einróma.

Fjárlaganefnd hefur fundað stíft í allan dag og samkvæmt heimildum mbl.is er vinna nefndarinnar við gerð fyrirvara á Icesave-samningnum komin á fullt skrið, bæði hvað varðar hina efnahagslegu fyrirvara sem og þá lagalegu. Meðal þess sem nefnt er í því samhengi er að fyrirvarar tryggi að hægt verði að halda dómstólaleiðinni opinni, sett verði skilyrði þess efnis að ekki sé hægt að ganga á gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands og þak sett á greiðslur þannig að ekki verði farið lengra en efnahagslegt þanþol Íslands leyfi.

Alþingismenn, sem blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við í kvöld, eru sér meðvitandi um að hvert einasta orð í fyrirvörunum þarf að velja af mikilli kostgæfni til þess að koma réttu skilaboðunum áleiðis til viðsemjenda ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert