Óskar Ingólfsson látinn

Óskar Ingólfsson
Óskar Ingólfsson mbl.is

Óskar Ingólfsson, klarinettleikari, lést á mánudag, þann 10. ágúst. Hann var 54 ára gamall.

Óskar útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974. Hann lærði á klarinett hjá Vilhjálmi Guðjónssyni og Gunnari Egilson í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þá hélt Óskar í framhaldsnám í Royal College of Music í London og var þar í einkanámi hjá John McCaw klarinettleikara. Hann lauk lokaprófi frá skólanum árið 1978.

Óskar starfaði lengi við tónmenntakennslu og var klarinettleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á árunum 1980-1997. Þá spilaði hann einnig í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku óperunni frá árinu 1980 og fram á miðjan 10. áratug síðustu aldar.

Þá kenndi hann við Hill House International-tónlistarskólann í London á árunum 1978-1980, Tónlistarskólann í Keflavík 1980-1982, Tónlistarskólann í Kópavogi 1980-1982, Tónlistarskólann í Reykjavík 1982-1986, Tónskóla Sigursveins 1982-1992 og Tónlistarskóla Garðabæjar 1992-1995.

Óskar var dagskrárgerðarmaður hjá Rúv á árunum 1987-1989 og deildarstjóri tónlistarsviðs frá árinu 1997 til ársins 2003. Þá tók hann við starfi sem aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík.

Óskar frumflutti fjölda íslenskra tónverka m.a. Rotundum og Cantilenu eftir Snorra Sigfús Birgisson og Brunnu beggja kinna björt ljós, fyrir selló, klarinett og píanó eftir Guðmund Hafsteinsson.

Þá frumflutti hann ennfremur fjölda íslenskra tónverka með Kaldalónstríóinu.

Óskar var framkvæmdastjóri Norrænna músíkdaga 1995-1996 og sat í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna árin 1993-1995. Þá var hann forstöðumaður trúfélagsins Zen á Íslandi – Nátthagi frá árinu 1999 og hlaut prestvígslu í því félagi í október 2008.

Hann átti jafnframt sæti í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 1997-2001.

Óskar skilur eftir sig tvo syni; Mikhael Aaron og Aron Inga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert