Þekktur glæpamaður handtekinn á Íslandi

Hosmany Ramos
Hosmany Ramos

Einn þekktasti glæpamaður Brasilíu situr nú í gæsluvarðhaldi á Íslandi eftir að hann var handtekinn með falskt vegabréf á Keflavíkurflugvelli í gær samkvæmt heimildum vefsíðunnar visir.is.

Hosmany Ramos, sem er lýtalæknir, er eftirlýstur í Brasilíu og mun eiga langan glæpaferil að baki. Hvorki lögregluembættið á Reykjanesi né Héraðsdómur Reykjaness vildi staðfesta fréttina þegar mbl.is leitaði eftir því.

Greint er frá því á vefsíðu Vísis að Ramos hafi verið einn virtasti lýtalæknirinn í Rio de Janeiro á 8. áratugnum en jafnframt verið stórtækur glæpamaður. Hann hafi smyglað eiturlyfjum á milli landa, og haldið úti glæpahópum sem rændu ríka fólkið sem Ramos taldi til vina sinna. Árið 1981 hafi Hosmany verið dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir flugvélaþjófnað, bifreiðasmygl og fyrir að myrða einkaflugmann sinn. 1996 hafi hann verið handsamaaður eftir einn mánuð á flótta. Á fllóttanum tók hann þátt í mannráni og fékk 30 ára fangelsisdóm til viðbótar.

Í desember á síðasta ári hafi Ramos fengið leyfi tl að fara heim yfir jól og áramót og átt að snúa aftur heim í janúar. Hann hyggist hinsvegar ekki gera það fyrr en aðbúnaður í fangelsunum yrði bættur. Nú sé Ramos hinsvegar í haldi á Íslandi.

Hér má komast á heimasíðu Ramos þar sem hann m.a. tilkynnir um forsetaframboð sitt á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert