Fagnar víðtækri samstöðu

Fjármálaráðherra í pontu
Fjármálaráðherra í pontu Eggert Jóhannesson

„Ég fagna því að þetta víðtæk samstaða tókst um afgreiðsluna, það er mjög gleðilegt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um afgreiðslu fjárlaganefndar á frumvarpi til laga um ríkisábyrgð vegna Icesave-samningsins. „Það styrkir okkur að geta snúið bökum saman um afgreiðslu málsins.“

„Helst vildi ég auðvitað að Framsóknarmenn skoðuðu það að koma inn í þetta,“ segir Steingrímur og kveðst vona að svo fari á seinni stigum.

Segist Steingrímur prýðilega sáttur við efnislegu niðurstöðuna, hún styrki umgjörðina um málið af Íslands hálfu. Sameiginlegt markmið allra hafi frá upphafi verið að tryggja sem sterkasta stöðu þjóðarinnar gagnvart viðsemjendum sínum. Þá séu fyrirvararnir málefnalegir og sanngjarnir.

„Ég fagna því að nefndin hafi lokið afgreiðslu málsins og þetta góða fólk sem eytt hefur mestöllu sumrinu í gríðarlega vinnu á hrós og þakkir skildar,“ segir Steingrímur og segir hljóðið hafa verið gott í samflokksfólki sínum vegna málsins. „Það er ákáflega gott að fá farsæla lausn á þessu máli og fá það frá þannig að það hætti að tefja fyrir og við getum snúið okkur að uppbyggingarverkefnunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert