Samningnum í rauninni hafnað

Bjarni Benediktsson á Alþingi
Bjarni Benediktsson á Alþingi Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segist eftir atvikum sáttur við þá niðurstöðu sem komin er í umfjöllun fjárlaganefndar um ríkisábyrgð á Icesave-samningnum, fallist hafi verið á kröfur Sjálfstæðismanna í öllum meginatriðum. Hann segist þó ekki sáttur við hvernig haldið hefur verið á málstað Íslendinga í málinu og kveður þjóðinni hafa verið settir þröngir kostir.

„Það er verið að snúa frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að veita ríkisábyrgð algerlega á haus og setja því mjög stranga skilmála og skilyrði sem algerlega vantaði inn í Icesave-samningana sjálfa,“ segir Bjarni. Með því að fallast á fyrirvarana segir hann ríkisstjórnina hafa lagt niður vopnin og viðurkennt mistök sín við meðferð málsins.

Segist Bjarni líta svo á að fyrirvararnir séu svo veigamiklir að þeir kalli á nýjar viðræður við Breta og Hollendinga um málið. Í raun hafi samningnum verið hafnað. „Það er alger sjálfsblekking að halda því fram að þessi ströngu skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni feli ekki í sér breytingu á því samkomulagi sem frá var gengið.“

Þrátt fyrir það segir Bjarni að Bretar og Hollendingar hafi engin málefnaleg rök til að fallast ekki á fyrirvarana.

Bjarni segir að Sjálfstæðismenn muni styðja frumvarpið í núverandi mynd en tekin verði afstaða til breytingatillaga komi þær fram við umræðu í þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert