Bíður eftir afsökunarbeiðni

Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Steingrímur J, Sigfússon, fjármálaráðherra á …
Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Steingrímur J, Sigfússon, fjármálaráðherra á Hólahátíð í dag mbl.is/JT

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að íslensk stjórnvöld eigi enn eftir að biðjast nægjanlega afsökunar á því sem gengið hafi á í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár og áratugi. Hann sagði í ræðu sinni á Hólum í Hjaltadal í dag að hann biði enn eftir afsökunarbeiðni frá þeim sem báru ábyrgð á Landsbankanum síðustu árin.

Átti von á því að Kjartan væri að biðjast afsökunar

„Og ekki væri verra ef þeir kæmu svo með auð sinn þann sem eftir kann að standa einhvers staðar og leggðu hann í púkkið til að bæta tjónið. Hlýtur ekki að koma afsökunarbeiðni bráðum frá þeim sem einkavæddu Landsbankann, frá bankastjórum, bankaráðsmönnum og eigendum sem með atferli sínu hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni og sálarangist.

Þegar ég sá að Kjartan Gunnarsson, sem var ýmist formaður eða varaformaður bankaráðs Landsbankans gamla lengi vel, var að skrifa stórgrein á heiðursopnu Morgunblaðsins í fyrradag og fjalla um Icesave-málið þá datt mér ekki annað í hug en að hann væri að biðjast afsökunar.

Það var nú ekki og hann af öllum mönnum undir sólinni taldi sig vera í siðferðilegri aðstöðu til annarra hluta.

Nær væri að allir þeir sem mesta ábyrgð bera á hruni bankanna, ekki síst Landsbankans, bæðu þjóðina afsökunar á því mikla tjóni sem þeir hafa valdið, krjúpandi á hnjánum," sagði Steingrímur í ræðu sinni á Hólahátíð nú síðdegis.

Telur að ýmsir eigi að biðjast afsökunar

Fjármálaráðherra sagði að sér þætti að biðja eigi þá afsökunar sem sættu óréttmætum og væntanlega ólögmætum persónunjósnum og símhlerunum vegna skoðana sinna.

„Mér finnst að það eigi að biðja íslensku þjóðina afsökunar að nafn hennar var lagt við ólögmætt árásarstríð í Írak og þá þjóð í leiðinni. Þá sem sættu þvingaðri vönun vegna einnar saman fötlunar ætti að biðja afsökunar. Og hvernig er það? Þurfa ekki ýmsir að biðjast afsökunar nú?"

Verður að gæta þess að atburðir endurtaki sig ekki

Steingrímur sagði að þess beri að gæta að hliðstæðir atburðir og íslenska þjóðin hefur upplifað undanfarin misseri endurtaki sig ekki.

Hann telji að nú sé rétti tíminn til að leggja línur um hvers konar samfélag eigi að vera á Íslandi árið 2020.

„Örugglega ekki hið græðgivædda efnis- og neysluhyggjusamfélag sem hér myndaðist um skeið og með skelfilegum afleiðingum að lokum.

Ég held að það eigi ekki að vera erfitt fyrir íslensku þjóðina að sameinast um markmið og leiðir í þessum efnum. Við ætlum okkur að verða, á nýjan leik myndu kannski einhverjir segja, gott jafnréttissinnað norrænt velferðarsamfélag, opið, lýðræðislegt samfélag. Samfélag samhjálpar og nægjusemi, góðrar umgengni við land og náttúru."

Steingrímur sér fyrir sér samkomu á Þingvöllum annað hvort 2030 eða 2044 þar sem vonandi þjóðin geti litið stolt til baka og sagt:  „Jú, vissulega lentu Íslendingar í miklum raunum, þarna í lok fyrsta áratugar aldarinnar, en menn gáfust ekki upp.“ Þeir hinir sömu, eða sama kynslóð og bar ábyrgð á hruninu, hún hafði þó manndóm í sér til að takast á við það, vinna úr því, gera það heiðarlega upp, endurreisa efnahag landsins og leggja grunn á nýjan leik að bjartri framtíð. Og þess vegna er þeim fyrirgefið, okkur öllum sem kynslóð, af því að við brugðumst ekki tvisvar, heldur bara einu sinni.

Við brugðumst ekki í seinni hluta verkefnisins, að axla sjálf  byrðar, takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim. Það er prófið og verður næstu misserin. Ætlum við, ráðandi kynslóð í landinu, ætlum við líka að bregðast í því að takast á við erfiðleikana og hrunið sem við sjálf berum auðvitað mikla ábyrgð á, þó ýmsir utanaðkomandi þættir hafi þar spilað inn í?

Nei, það skal ekki verða. Og ég, a.m.k. vil sem einstaklingur heita því, hér og nú, að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og er tilbúinn til að leggja mikið á mig og færa miklar fórnir til þess að þannig verði ekki.  Mér liggur við að segja að mér sé alveg sama hvað um sjálfan mig verður og hverju ég þarf að kosta til, sem einstaklingur og stjórnmálamaður til þess að leggja mitt litla að mörkum. Það skal takast að endurreisa Ísland og það mun takast," sagði Steingrímur á Hólahátíð.

Vötn landsins á heimsminjaskrá

Hann segist sjá fyrir sér náið samband sjálfstæðra Færeyja, Grænlands og Ísland með Ísland sem kraftmikla samgöngumiðstöð þessa svæðis með áherslu á ferðaþjónustu.

„Ég sé Ísland sem miðstöð mikillar gagnavörslu og vinnslu í krafti sinnar legu, svala veðurs, landrýmis og grænu orku. Ég sé fyrir mér tíma þar sem vatnið er orðið að einni helstu virku auðlind okkar og jöklar ár og vötn landsins eru á heimsminjaskrá sem ein af sammannlegum gersemum heimsins.

Ég sé fyrir mér Ísland sem kraftmikla miðstöð matvælastóriðju þar sem fullunnar og hágæða matvörur úr hreinu umhverfi sjávarútvegs og landbúnaðar eru eftirsótt gæði sem færri fá en vilja.

Ég sé fyrir mér mannlíf og athafnasemi í öllum byggðum landsins. Ég sé fyrir mér Vatnajökulsþjóðgarð sem heimsþekkt aðdráttarafl, krúnudjásn, hjarta landsins.Ég sé fyrir mér herlausa friðelskandi þjóð sem bíður fram land sitt sem hlutlausan griðastað, vettvang samningaviðræna, alþjóðaráðstefnuhalds. Ég sé krossgötur margs konar samskipta og viðskipta austurs og vestur og opið hlið til norðurslóða."

Siðrof í íslensku samfélagi

Fjármálaráðherra ræddi um aðdraganda og meginorsakir þeirra erfiðleika sem Íslendingar standa frammi fyrir í ræðu sinni. Segir hann engan efa í sínum huga að drjúgur sökudólgur hér er hugmyndafræði, hugsunarháttur, gildismat og tíðarandi, jafnvel má segja tíska, sem reyndist okkur ekki vel.  „Það var hin blinda efnis- og markaðshyggja, það var dýrkun græðginnar, það var það siðrof sem var að verða í íslensku samfélagi sem við erum að súpa seyðið af. Þar með er að sjálfsögðu einnig mikill þáttur þeirra stjórnmálamanna og hugsuða sem gengu þessum hlutum á hönd og voru boðberar og /eða gerendur fyrir. Athafnir banka- og viðskiptajöfranna sjálfra, hafa orðið okkur harla dýrkeyptar. Þeir sigldu ljúfan byr tíðarandans og umhverfisins sem þeim var skapað eða þeir bjuggu sér til. Glæframennska þeirra og glópsskapur, svo ekki séu notuð um það enn sterkari orð, er orðið að harmleik,"  sagði Steingrímur.

Gagnrýndi fjölmiðla og fræðasamfélagið

Hann fjallaði einnig um hlut fjölmiða og ítrekaði þá skoðun sína að þeir hafi brugðist þjóðinni, spilað með og ekki sinnt sinni gagnrýnis- og aðhaldsskyldu.

„Ekki það að ég sé sérstakur talsmaður þess að fjölmiðlar flytji eingöngu neikvæðar fréttir og rífi niður, en málefnaleg gagnrýni og aðhald þarf alltaf að vera til staðar. 

Svipað má reyndar segja um fræðasamfélagið, og jafnvel ýmis félagasamtök. Hefðu menn ekki þar getað staðið sig betur, verið betur niðri á jörðinni, leyft heilbrigðri skynsemi, óbrenglaðri dómgreind og siðferðismati að ráða meiru um afstöðu sína? Hefði þá ekki betur farið?"

 
Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra mbl.is/JT
Frá Hólum í Hjaltadal í dag
Frá Hólum í Hjaltadal í dag mbl.is/JT
Steingrímur J, Sigfússon ræðir við Sigríði Jóhannsdóttur og Leif Breiðfjörð …
Steingrímur J, Sigfússon ræðir við Sigríði Jóhannsdóttur og Leif Breiðfjörð og Margréti Sigtryggsdóttur vígslubiskupsfrú en Sigríður og Leifur önnuðust hönnun og gerð hátíðarskrúða sem tekinn var í notkun við messu í dag. mbl.is/JT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert