Ísland stendur upp úr dræmu ferðasumri

Ferðamenn á Íslandi.
Ferðamenn á Íslandi. mbl.is/Rax

Mikil niðursveifla er í ferðamannaiðnaði um alla Evrópu, ekki síður á vinsælum áfangastöðum á borð við Ítalíu, Spán og Grikkland þar sem greinin er mikilvæg tekjulind. Undantekningin á þessu er Ísland í kjölfar veikingar krónunnar. The Times á Möltu fjallar um þetta. Haft er eftir Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra, að fjöldi ferðamanna hafi aukist hérlendis.

Evrópa er það svæði sem hefur orðið næstverst úti, samkvæmt hinu maltneska Times, næst á eftir Mið-Austurlöndum, þar sem fjöldi ferðamanna hefur minnkað um 10% það sem af er ári. Vitnað er til eiganda minjagripaverslana í Aþenu sem segir söluna hafa minnkað um 50-70% í sumar.

Markaðsstjóri ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna, John Kester, segir fólk enn vilja ferðast en þurfi að leita nýrra leiða til að ráða við fjárhaginn. Lönd þar sem gjaldmiðillinn hefur fallið, á borð við Ísland, Tyrkland og Marokkó, njóta aukinna vinsælda vegna þessa.

Haft er eftir forstjóra frönsku ferðaskrifstofunnar Protourism að ferðamenn kjósa að eyða um 150 evrum, eða 27 þúsund krónum, minna í ár en í fyrra.

Ferðum yfir Atlantshafið hefur einnig fækkað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert