Bandarískt herskip fundið á botni Faxaflóa?

Alexander Hamilton.
Alexander Hamilton.

Olíuflekkur, sem sést hefur á Faxaflóa undanfarnar vikur, er talin koma frá skipsflaki sem þar sé á hafsbotni. Talið er líklegast að um sé að ræða varðskip bandarísku strandgæslunnar, sem sökk á svæðinu árið 1942 eftir að hafa orðið fyrir árás þýsks kafbáts. 

Olíuflekkurinn sást 7. júlí sl. í eftirlitsflugi TF-Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar. Olíuflekkurinn var ekki greinanlegur með berum augum. Sif flaug að nýju yfir svæðið tveimur dögum síðar og þótti þá greinilegt að mengunin ætti upptök sín á hafsbotni.

Til að kanna málið nánar var farið í flakaskrá Sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar en ekkert flak er skráð á þeim slóðum þar sem olían seytlar upp.  Hinsvegar kom tundurdufl í troll togskipsins Fróða ÁR í nálægð við þennan stað árið 2002.  Þar sem duflið hafði ekki verið virkjað var talið hugsanlegt að duflið væri úr skipi sem hafði verið að flytja það. 
 
Sjómælingabáturinn Baldur átti í síðustu viku leið yfir Faxaflóann og var rennt með fjölgeislamæli bátsins yfir upptök olíuflekans . Kom þá í ljós þúst á hafsbotninum á um 90 m dýpi sem er 8 metra há, 97 metra löng og 13 metra breið. Reynist grunur Landhelgisgæslunnar, um að þarna sé um að ræða skipsflak á hafsbotninum,  á rök reistur verður næsta skref að fara með neðansjávarmyndavél um svæðið.
 
Landhelgisgæslan segir, að við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að líklegast sé um að ræða bandaríska varðskipið Alexander Hamilton, sem var 327 fet að lengd (99,5 metrar) og sökk á svæðinu árið 1942. Skipið var að fylgja skipalest yfir hafið sem varð fyrir árás þýska kafbátsins  U-132.

Í grein frá árinu 1946 eftir Allen aðmírál, sem var ungur sjóliðsforingi um borð í Alexander Hamilton árið 1942, kemur fram að um 150 manns hafi verið bjargað um borð í íslenska fiskibáta, um 50 þeirra voru særðir, þar af sumir með mikil brunasár eftir sprengingar í gufukatli en alls fórust 26 sjóliðar í árásinni eða létust af sárum sínum í framhaldi af henni. 

Herskip kom frá Hvalfirði til aðstoðar og sökkti það að lokum kafbátnum með djúpsprengjum eftir að hafa hrakið hann á grunnsævi nálægt landi með djúpsprengjuárásum.  

Ásgrímur L. Ásgrímsson, yfirmaður stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, hitti Allen árið 1992 ásamt mörgum þeirra sem komust lífs af en þeir komu til Íslands í tilefni að því að 50 ár voru liðin frá þessum atburði. Við það tækifæri færðu þeir eftirlifandi íslenskum björgunarmönnum sínum viðurkenningu og þakkir fyrir björgunina. 
 
Alexander Hamilton var fyrsta bandaríska herskipið. sem sökkt var í Norður-Atlantshafi eftir að Bandaríkin lýstu yfir stríði við öxulveldin eftir árásina á Perluhöfn í desember 1941.  

Bandaríska strandgæslan var á árunum 1936-1986 með sjö skip í þjónustu sinni af sömu tegund og Alexander Hamilton, tvö þeirra eru enn við lýði en komin á söfn. Heita þau USCGC Ingham og USCGC Taney. Þessi skip voru lengi í þjónustu bandarísku strandgæslunnar (USCG) og bar Ingham gullnúmer USCG seinustu árin, en hún var elsta skip USCG í notkun en tekin úr þjónustu árið 1988.  

Upplýsingar um Alexander Hamilton

Heimasíða Landhelgisgæslunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert