Fleiri tilboð bárust

HS ORKA
HS ORKA mbl.is

„ÞAÐ bárust fleiri tilboð en frá Magma Energy í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Fjöldi aðila sýndi málinu áhuga og sendi okkur tilboð. Félagið Magma var hins vegar búið að kaupa hlut áður í HS Orku og hafði farið mjög nákvæmlega yfir verðmæti fyrirtækisins. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skoðaði öll tilboðin og ákvað að lokum að ganga til viðræðna við Magma Energy um kaup á hlutnum. Þannig standa málin í dag,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Hann kveðst bundinn trúnaði hvaðan önnur tilboð bárust í hlut Orkuveitunnar en ljóst þykir að þau hafa komið frá útlöndum.

Orkuveita Reykjavíkur keypti tæplega 17% hlut í HS Orku um mitt ár 2007 og skuldbatt sig jafnframt til að kaupa rúmlega 15% til viðbótar af Hafnarfjarðarbæ. Um mitt ár í fyrra tilkynntu samkeppnisyfirvöld að Orkuveitunni væri ekki heimilt að eiga svo stóran hlut í öðru orkufyrirtæki á samkeppnismarkaði.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, telur afar mikilvægt að fara að engu óðslega í þessu máli.

Hann segir ennfremur að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála þess efnis að Orkuveita Reykjavíkur mætti ekki eiga meira en 10% í HS Orku hefði verið ákaflega „2007-kenndur“ og umdeilanlegur.

Þorleifur segir jafnframt að Orkuveita Reykjavíkur muni tapa umtalsverðu fé á sölu hlutarins. „Orkuveitan keypti sinn hlut á genginu 7 á sínum tíma en tilboð Magma hljóðar upp á 6,31 á hvern hlut. Mér reiknast svo til að Orkuveitan muni því tapa 1,3 milljörðum á kaupunum.“

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, segir þetta „rétt og ekki rétt“. „Orkuveitan keypti sinn hluta vissulega á genginu 7 og tilboð Magma hljóðar upp á 6,31. Gengið 7 var hins vegar í Hitaveitu Suðurnesja áður en hún var klofin í tvö félög. Hlutafé var ekki skipt jafnt milli þessara félaga og þess vegna jafngildir gengið 6,31 í HS Orku genginu 7 í hinu sameinaða félagi. Þetta er sama talan og þess vegna tapar Orkuveitan ekki á sölunni.“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, segist hissa á málflutningi VG í málinu. „Fulltrúi VG greiddi atkvæði gegn því að hluturinn yrði keyptur á sínum tíma á fundi borgarráðs þann 2. ágúst 2007. Nú kusu þeir á móti því að hluturinn yrði seldur.“

Hann segir jafnframt að stjórn Orkuveitunnar sé einfaldlega að framfylgja lögum í málinu. „Orkuveitan getur þurft að greiða dagsektir fari hún ekki eftir úrskurði samkeppnisyfirvalda.“

Hann segir það ekki Orkuveitunnar að ákveða hvort HS Orka eigi að vera í eigu opinberra aðila eða einkafyrirtækja. „Ákvörðun um einkavæðingu var tekin á allt öðrum vígstöðvum. Við leituðum bara eftir besta tilboðinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert