Ragnheiður: Ekki þinginu sæmandi

mbl.is/Ómar

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að forsætisnefnd Alþingis fjalli um nokkur óviðeigandi atvik, sem komu upp í þingsal á fimmtudag og föstudag. Hún vonast til að fundurinn verði haldinn á morgun.

„Þetta eru uppákomur í þinginu sem mér finnst ekki alveg sæma okkur,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Það komu upp atvik á fimmtudag og föstudag, þegar við vorum að ræða Icesave, sem að mínu mati eru þess eðlis að þurfi að ræða við forsætisnefndina, og þar á ég sæti,“ segir Ragnheiður og bætir við að um tvær eða þrjár uppákomur sé að ræða.

Hún segist hins vegar ekki vilja ræða nánar um þessi atvik við fjölmiðla fyrr en nefndin sé búin að taka málið til umfjöllunar.

Fjölmiðlar og bloggarar hafa fjallað talsvert um hegðun og svör Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í ræðustól á Alþingi sl. fimmtudagskvöld. Hefur myndskeið sem sýnir Sigmund Erni í ræðustólnum farið sem eldur í sinu á netinu.

Fram kemur í DV í dag að Sigmundur Ernir hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann tók þátt í umræðunum. Haft er eftir ónafngreindum viðmælanda að þingmaðurinn hafi neytt áfengis í kvöldverðarboði MP banka áður en hann tók þátt í umræðu um Icesave-málið.

Sigmundur Ernir hefur hins vegar neitað því að hafa drukkið áfengi í samtali við RÚV.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eyþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert