Sagt að semja um eldri skuld til að fá nýja mataráskrift

.
. mbl.is/Kristján

Þeim sem skulda enn fyrir mataráskrift frá síðasta skólaári verður ekki gert kleift að byrja í mataráskrift á nýju skólaári fyrr en búið er að semja um eða greiða upp eldri skuldir.

Þetta kemur fram í bréfi frá fjármálastjóra menntasviðs sem sent var grunnskólum í Reykjavík. Voru skólarnir beðnir að senda þessar upplýsingar til foreldra nemenda.

„Auðvitað hefur verið skorað á foreldra að greiða skuldir sínar. En það er algjörlega ljóst að við gerum allt sem við getum til þess að börnin í grunnskólunum fái mat. Það er engin harka í því,“ segir Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri Reykjavíkur.

Ragnar segir að innheimtan vegna mataráskrifta síðastliðið vor hafi ekki verið slakari en undanfarin ár. „Við sáum enga aukningu á vanskilum í fyrravetur miðað við fyrri ár, meira að segja miðað við árið 2007.“

Að sögn Ragnars liggur ekki fyrir hversu margir foreldrar skulda enn fyrir mataráskrift barna sinna frá því í fyrravor. „Fólk er að koma úr sumarfríi og fer að greiða skuldir sínar frá því í vor.“

Hafi skuld vegna mataráskriftar ekki verið greidd 10 dögum eftir eindaga fer hún í milliinnheimtu, að því er Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri menntasviðs, greinir frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert