Vanhugsuð og óaðgengileg krafa

Aðalfundir Exista var haldinn í dag.
Aðalfundir Exista var haldinn í dag. mbl.is/Kristinn

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, sagði á aðalfundi félagsins í dag, að krafa skilanefnda bankanna um að nafngreindir stjórnendur Exista verði látnir víkja sé bæði vanhugsuð og óaðgengileg.

Lýður sagði, að varnarbarátta félagsins hafi verið bæði löng og ströng og starfsfólk og stjórnendur bæði móðurfélagsins og dótturfélaganna hafi skilað afbragðsgóðum árangri við erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu.

Sagði Lýður, að alls væru starfsmenn dótturfélaga Exista um 2200 talsins og í því samhengi mætti einnig nefna að starfsfólk Bakkavarar, sem Exista á stóran hlut í, sé um 20 þúsund talsins.

Allt á þetta fólk mikið undir því að Exista og Bakkavör takist, báðum tveimur, að halda sínu striki. Ég leyfi mér að fullyrða að það geti aldrei  orðið nema núverandi forysta félaganna verði áfram við stjórnvöl þeirra. Hugmyndir einstakra manna í skilanefndum íslensku bankanna, sem þeir hafa jafnvel reifað undir nafnleynd í fjölmiðlum, um að ekki verði samið við Exista nema nokkrir nafngreindir stjórnendur þeirra verði látnir víkja, eru
mér óskiljanlegar," sagði Lýður.

Hann sagði, að erlendur kröfuhafar Exista, 37 alþjóðlegir bankar, hefðu lýst sig skriflega sammála lausn,  sem fæli það í sér, að Exista greiði skuldbindingar sínar að fullu, þótt skilmálum og greiðslutímabili verði breytt frá núverandi lánasamningum. Þessir kröfuhafar haf sett það sem skilyrði fyrir frágangi samninga af sinni hálfu að tryggt verði að stjórnendateymi Exista leiði umbreytingu félagsins.

„Ég er sannfærður um að í þeirri viðkvæmu stöðu sem  félagið er í um þessar mundir sé hagsmunum kröfuhafa og félagsins best borgið með áframhaldandi starfi þess fólks. Ég leyfi mér meira að segja að efast stórlega um að nýr hópur lykilstjórnenda, sem ekki gjörþekkir inniviði
félagsins, geti tekið við því við núverandi aðstæður og fetað þann vandrataða veg sem liggur að endurreisn þess á næstu árum.

Gífurlegir hagsmunir eru í húfi. Ekki einungis hjá kröfuhöfunum sem gætu fengið kröfur sínar endurgreiddar að langmestu eða jafnvel öllu leyti. Þegar horft er til lengri framtíðar geta hluthafar félagsins einnig átt talsvert undir enda þótt verðmæti þeirra hafi rýrnað til mikilla muna. Fyrir íslenskt samfélag í heild sinni er einnig mikið í húfi. Í fyrsta lagi skipta endurgreiðslur Exista til íslenskra kröfuhafa, einkum banka og lífeyrissjóða, tugum milljarða króna sem ella gætu tapast að miklu eða jafnvel öllu leyti. Þar á meðal eru fjármunir sem munu renna til gamla Landsbankans og um leið upp í Icesave-reikning þjóðarinnar," sagði Lýður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert