Stórbruni í Grundarfirði

Slökkviliðsmenn úr Grundarfirði og frá Ólafsvík berjast við eldinn.
Slökkviliðsmenn úr Grundarfirði og frá Ólafsvík berjast við eldinn. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

„Það liggur kolsvartur reykur yfir bænum,“ segir Gunnar Kristjánsson, fréttaritari Morgunblaðsins á Grundarfirði. Stórbruni er á Grundarfirði í gamla fiskmarkaðnum við hliðina á flutningafyrirtæki Ragnars og Ásgeirs við Sólvelli.

Slökkvilið Grundarfjarðar og Ólafsvíkur vinna að því að slökkva eldinn en enn skíðlogar í húsinu.  Að sögn Ásgeirs Ragnarssonar framkvæmdastjóra flutningafyrirtækisins er húsnæði þess ekki í hættu þar sem vindur blæs eldinum í aðra átt.

Mestur eldur er í vestanverðu húsinu og dreifir hann úr sér. Mikinn reyk leggur yfir bæinn og er fólk beðið um að loka gluggum. Freonkútar og gaskútar eru í húsinu svo hætta er á sprengingum.

Norðanátt og hvasst er á Grundarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert