Mjölsverksmiðjan á Vopnafirði á áætlun

Starfsmenn Mælifells ehf. við steypuvinnu á Vopnafirði.
Starfsmenn Mælifells ehf. við steypuvinnu á Vopnafirði. Mynd: HB Grandi/Jón sigurðsson

Framkvæmdum við nýja fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði miðar vel. Að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar verksmiðjustjóra eru þær á áætlun. Búið er að steypa um um helming verksmiðjugólfsins og nú í lok vikunnar var von á fyrstu flutningabílunum sem flytja stálgrindina í verksmiðjuhúsið til Vopnafjarðar. Áætlanir gera ráð fyrir því að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur í byrjun næsta árs.

„Hugmyndin var sú að ljúka við að steypa verksmiðjugólfið á föstudag en það frestaðist vegna rigningar og spáin var allt annað en hagstæð. Sem betur fer gerði norðvestanátt og þá rignir ekki hér á Vopnafirði. Því er steypuvinna í fullum gangi og vonandi verður lokið við að steypa verksmiðjugólfið um helgina,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson á vef HB Granda.

Hann segir að grunnflötur verksmiðjuhússins sé um 1.200 fermetrar. Steypuvinnu við húsið, sem hýsa mun stjórnstöð verksmiðjunnar, skrifstofur, rannsóknastofu og starfsmannarými, er að mestu lokið.

„Nú er verið að setja upp stálgrind fyrir þjónustuhús, sem verður ofan á mjöltönkunum, og lyftuhús og eftir helgi verður hafist handa við að reisa stálgrindina í sjálfu verksmiðjuhúsinu. Samhliða því verða ýmis stór tæki, sem voru í verksmiðju Faxamjöls í Reykjavík, flutt inn á verksmiðjugólfið,“ segir Sveinbjörn.

Vefur HB Granda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert