Vilja að samningur við Magma verði gerður opinber

Orkuver HS Orku við Svartsengi.
Orkuver HS Orku við Svartsengi.

Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að krefjast þess á fundi borgarstjórnar í dag, að samningur Orkuveitu Reykjavíkur um sölu á hlut félagsins í HS Orku til kanadíska félagsins Magma verði  lagður fram og gerður opinber.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti í gær kaupsamning við Magma Energy um 16,58% hlut Orkuveitunnar og tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku. Jafnframt samþykkti stjórnin samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um uppgjör milli aðila vegna viðskipta þeirra með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að í kaupsamningnum sé ákvæði um að aðeins stjórnmenn, embættismenn og borgarfulltrúar eigi að fá aðgang að samningnum og efnisatriðum hans. Dagur segir í tilkynningu, að Orkuveita Reykjavíkur sé í almannaeigu og því hafi almenningur skýlausa kröfu á að fá upplýsingar um „tilveru og innihald" þessa samningsins en ekki aðeins fáeinir útvaldir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert