Segir samninga við HS Orku í samræmi við orkulög

Samningar Reykjanesbæjar um að veita HS Orku heimild til að virkja áfram á landinu eru nákvæmlega í anda þeirra breytinga sem gerð voru á orkulögum í fyrra, segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hann segir fullyrðingar fjölmiðla, bloggara og jafnvel ráðherra um annað, algerlega úr lausu lofti gripnar.

Árni Sigfússon sendi í morgun frá sér yfirlýsingu vegna tíðra fullyrðinga í fjölmiðlum um að leiga á afnotarétti í nýtingarsamningi á auðlind milli Reykjanesbæjar og HS orku, sé lengri en lög gera ráð fyrir. Árni segir í yfirlýsingunni að mikilvægt sé að hið rétta komi fram. Í því tilefni sé eðlilegast að vitna beint í lög og samninga.

Árni vitnar til breytinga á orkulögum sem Alþingi samþykkti í júní 2008. Lagabreytingin var unnin undir forystu Katrínar Júlíusdóttur sem þá var formaður iðnaðarnefndar og Össurar Skarphéðinssonar sem þá var iðnaðarráðherra.

Árni Sigfússon segir í yfirlýsingunni að breytingar laganna hafi miðað að því að tryggja að auðlindin yrði í opinberri eigu, ríkis eða sveitarfélaga, en unnt væri að gera nýtingarsamninga við virkjanafyrirtæki, sem gætu verið í einkaeigu.

Í lögunum segir að ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu sé heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skuli eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.

Í kjölfar lagasetningarinnar á Alþingi, keypti Reykjanesbær landið og gerði samning um afnotarétt við HS Orku. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir samninginn nákvæmlega í anda lagabreytingar Alþingis.

„Þá hefur einnig verið sýnt fram á að greiðslur í auðlindasamningi milli Reykjanesbæjar og HS Orku eru umtalsvert hærri en gilda í núverandi nýtingarsamningum ríkisins. Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lýsti því yfir í gærkvöldi að ef ný nefnd sem ríkið hefur skipað til að fara yfir orkunýtingarsamninga leiðir til breytinga sem eru hagstæðari en núverandi samningur Reykjanesbæjar, sé fullur vilji til að endurskoða samningana í samstarfi við HS Orku hf.,“ segir í yfirlýsingu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert