Þröngir flokkshagsmunir þurfa að víkja

Forsvarsmenn vefsíðunnar kjosa.is segja að með staðfestingu forsetans á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga sé ljóst að 26. grein stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur dugi ekki til. Almenningur þurfi að fá sjálfstæðan rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um brýnustu hagsmunamál sín.

Rúmlega tíu þúsund manns skoruðu á  forseta Íslands að synja staðfestingar á lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna við Hollendinga og Breta.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands staðfesti hins vegar lögin í morgun. Í yfirlýsingu sagðist forsetinn staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið lætur hann í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna.

„Með því að forseti Íslands tók formlega á móti áskoruninni var undirstrikað það sem öllum er í raun ljóst, að 26. grein stjórnarskrárinnar er gild samkvæmt orðanna hljóðan. Af ákvörðun forseta Íslands er jafnframt ljóst að 26. greinin dugar ekki til. Almenningur þarf að fá sjálfstæðan rétt til þess að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur um brýnustu hagsmunamál sín, þannig að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geti ekki stýrt samfélaginu í þrot án þess að almenningur fái borið hönd fyrir höfuð sér. Hagsmunir almennings þurfa að ríkja í samfélaginu. Þröngir flokkshagsmunir að víkja,“ segir í yfirlýsingu forsvarsmanna kjosa.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert