Íslendingar í forystu við bindingu koltvíoxíðs í berg

Gestir á ráðstefnunni skoðuðu borholur á Hellisheiði í gær.
Gestir á ráðstefnunni skoðuðu borholur á Hellisheiði í gær. mbl.is/Eggert

Þekktir erlendir sérfræðingar á sviði jarðefnafræði telja að Ísland geti orðið í forystu við bindingu kolefnis í basalt. Sá iðnaður geti orðið jafn stór og olíuiðnaðurinn í framtíðinni. Búist er við að binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun hefjist upp úr næstu áramótum.

Unnið hefur verið að verkefninu frá 2007 en það er í samvinnu Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og tveggja erlendra háskóla. Með aðferðinni er koltvíoxíðgas steingert ofan í jörðinni og þannig komið í veg fyrir að það fari út í andrúmsloftið.

„Rannsóknir hér gefa til kynna hvernig þetta muni ganga annars staðar,“ segir Eric H. Oelker, forseti Samtaka evrópskra jarðefnafræðinga. „Íslendingar búa yfir gríðarlegri sérfræðiþekkingu í gegnum alla vinnuna sem hefur verið unnin á jarðhitasvæðunum. Þessi sérfræðiþekking er framtíð þessa iðnaðar.“

Hann segir útlit fyrir að iðnaðurinn verði jafn stór í framtíðinni og olíuiðnaðurinn. „Vonandi verða íslenskir sérfræðingar leiðandi í að koma þessari aðferð út í heim.“

Að sögn Sigurðar Reynis Gíslasonar jarðefnafræðings, sem stýrir verkefninu, snúa væntingar einnig að því að með aðferðinni megi jafna kolefnisbókhald Íslendinga. „T.d. væri möguleiki að setja þetta upp við álverið í Helguvík þegar verður búið að þróa þessa tækni. Ef álver þurfa að borga fyrir kolefnislosun sína í framtíðinni verður það hvati fyrir þau að setja peninga í að koma því niður í jörðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert