Móðir hrökklast frá námi

Sigrún Dóra Jónsdóttir, tveggja barna einstæð móðir með gigtarsjúkdóm sem stundar nám við háskólann, sér fram á að hrökklast úr námi eftir að Íslandsbanki neitaði henni um fyrirgreiðslu vegna námslána.

Hún segist vera að sýna fram á það með náminu að hún sé öll að vilja gerð til að ná heilsu og standa á eigin fótum. Núna sjái hún ekki fram á annað en að hrökklast úr námi. Hún treysti sér ekki til að ráða fram úr fjárhagsvandræðunum og vera í þungu háskólanámi eins og staðan sé. Þá sé hún með vefjagigt sem sé að hluta til andlegur sjúkdómur. Þegar henni líði illa finni hún miklu meira til.

Forsaga málsins er sú að hún hætti að fá endurhæfingarlífeyri í maí: Hún kærði þá ákvörðun en það tók Tryggingastofnun þrjá mánuði að úrskurða í málinu. Í sumar hafði hún því engar tekjur til að framfleyta sér og fjölskyldunni. Eftir ráðleggingar frá félagsráðgjafa ákvað hún að nota hluta af eftirágreiddu námsláni Lín sem átti að greiða upp námslán vetrarins til að borga húsaleigu og leikskólagjöld.

Hún hefur  fjögurra milljóna bankalán á bakinu vegna íbúðar sem hún hafði keypt á hundrað prósenta láni en selt aftur með afföllum. Afborganir af láni sem var tekið fyrir afföllunum nema sjötíu og fimm þúsund á mánuði.

Þegar svarið barst frá Tryggingastofnun fékk hún bætur frá fyrsta September en ekki aftur í tímann. Bankinn neitar henni um fyrirgreiðslu vegna námslánsins í janúar, þar sem hún skuldi afborganir af bankaláninu.

Hún segir að þetta sé ömurleg staða. Hún hafi aldrei verið jafn stolt á ævinni og þegar hún útskrifaðist sem stúdent frá Keili í fyrra og tók við prófskírteininu eftir þriggja ára mikla baráttu við veikindi og fjárhagserfiðleika. Hún segist hafa hlakkað til að hefja nýtt líf og stunda háskólanám. Það hafi hinsvegar ekki verið upplífgandi heilsunnar vegna að standa í þessu stappi í allt sumar. Núna finnist henni að hún sé komin í þrot.

Hún segist  ekki geta skipt um banka þótt hún viti til þess að fólk hafi fengið betri fyrirgreiðslu en hún í svipuðum aðstæðum. Það þurfi að framvísa leyfi frá bankanum til LÍN og henni hafi verið sagt að slíkt leyfi fái hún ekki. Hún segist því í raun vera í gíslingu hjá bankanum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert